Eftir að búið er að hreinsa farðann af andlitinu þarf að þvo andlitið vel. Margir telja nóg að nota hreinsiklút, en það þarf meira til að ná öllum farða af andlitinu, ásamt óhreinindum eins og svita, mengun úr andrúmsloftinu og fleira. Því hreinna sem andlitið er því betur situr farðinn á þegar andlitið er farðað.
Fyrst þarf að hreinsa allan farða af. Til að ná augnmálningu af skaltu væta bómullarhnoðra með augnfarðahreinsi sem inniheldur olíu og þrýsta varlega á augnlokin. Bíddu í 10 sekúndur áður en þú þurrkar málninguna af, til að leyfa maskara og eyeliner að leysast upp. Notaðu hreinsiklúta eða bómull með andlitsvatni til að hreinsa afganginn af farðanum af.
Bleyttu andlitið og berðu hreinsimjólk á andlitið með fingurgómunum. Byrjaðu við munnvikin og dragðu fingurna yfir nefið, upp yfir ennið, kringum augun, yfir kinnar og niður að höku. Gerðu þetta í tvær mínútur til að ná vel allri fitu og óhreinindum af andlitinu. Hreinsaðu með volgu vatni. Þurrkaðu andlitið með hreinu handklæði, án þess að nudda andlitið.
Innan nokkurra mínútna skaltu bera þau krem og serum sem þú notar á andlitið, á meðan húðin er enn rök og opin.
Gættu þess að þrífa allan farða af áður en þú ferð í líkamsræktina. Annars er hætta á því að þú nuddir farða inn um opnar svitaholur, sem veldur útbrotum.
Heimildir: Fréttatíminn