Við verðum sífellt meðvitaðri um það hversu gott það gerir okkur að borða hreina fæðu. Fæðu sem er laus við aukaefni, rotvarnarefni, er sykurlaus og heilnæm. En það getur verið erfitt í hröðu samfélagi að velja hreina fæðu. Margt sem við neytum í góðum tilgangi inniheldur gjarnan aukaefni sem eru ekki góð fyrir líkamann. Hér eru nokkrar góðar leiðir til þess að hreinsa mataræðið með einföldum hætti.
1. Notaðu ferskar kryddjurtir. Við þekkjum flest gremjuna við að henda heilu búntunum af slöppum kryddjurtum en það vandamál er hægt að leysa með því að frysta kryddjurtirnar um leið og þær fara að láta að sjá á. Eins má geyma þær í loftþéttum boxum í ísskáp, þannig geymast þær mun lengur. Ef þú ætlar að frysta kryddjurtirnar skaltu skera eða rífa þær í klakabox, hella olíu yfir og setja í frysti. Þannig geturðu tekið út eftir þörfum og sett kryddklakakubb út í pottréttinn eða súpuna hvenær sem er.
2. Búðu til eigin sósur og ídýfur. Þær sem þú kaupir eru vanalega uppfullar af allskyns aukaefnum. Heimatilbúnar sósur geymast í allt að viku í lokaðri krukku í kæli. Svo smakkast þær mun betur!
3. Orkustykki og granóla-stykki, sem getur verið handhægt að grípa sér milli mála í næstu búð, eru gjarnan uppfull af allskonar óþarfa, ekki síst sykri, gervisykri og pálmaolíu, svo eitthvað sé nefnt. Betra er að hafa með sér hnetur eða rúsínur í poka og svo má alltaf búa til eigin orkustykki heima með góðu og heilnæmu hráefni.
4. Blómkál er sannkölluð undrafæða. Fáar hitaeiningar, næringarríkt, trefjaríkt og auðmeltanlegt! Það geturðu notað til þess að þykkja súpur og gera þær matarmeiri og mjúkar, þú getur búið til pítsubotn, hrísgrjón, steik, buffalóvængi, „kartöflumús“ og sem uppistöðuna í hvers kyns pottrétti. Frábær leið til þess að gera mataræðið hreinna, hitaeiningasnauðara og hollara!
5. Slepptu öllum gosdrykkjum og orkudrykkjum – þeir eru vanalega stútfullir af allskonar óþarfa. Ef þig langar að drekka eitthvað bragðgott, settu frekar vatn í könnu og bættu sítrónu, hindberjum og myntu við ásamt ísmolum og þú ert komin/n með dásamlegan, heilnæman drykk. Annað sem má nota til þess að búa til bragðbætt vatn er jarðarber, engifer, gúrka og appelsínur.
6. Hvítlaukur, greip, epli, gulrætur, valhnetur og túrmerik er meðal þess sem hreinsar lifrina. Aldrei nóg af þessari klassafæðu.