Nú eru umhleypingar eins og allajafna gerist nokkrum sinnum yfir veturinn – það frystir og snjóar og í kjölfarið koma hlýindi sem breyta snjónum í glerhált svell á augabragði. Þegar þessi staða er uppi fjölgar komum á slysadeild allajafna töluvert vegna hálkuslysa – og þau fara ekki í manngreinarálit. En það er ýmislegt hægt að gera til þess að minnka líkurnar á því að enda flatur á jörðinni, jafnvel með brotin bein.
Fyrst og fremst þarf að huga að skónum. Mörg slys verða vegna þess að fólk er einfaldlega ekki nægilega vel útbúið fyrir svellbunkana. „Mannbroddar bjarga beinum“ ætti að vera helsta slagorðið í þessu tíðarfari og hafa ber í huga að broddarnir eru ekki bara fyrir eldri borgara. Ef ekki er stemning fyrir mannbroddum þarf að passa að vera í skóm með grófum sólum og í öllum bænum hafið spariskóna með ykkur í poka.
Sjá einnig: 10 ráð til að halda á sér hita í vetur
Best er að taka lítil skref. Áætlaðu rúman tíma til þess að komast á milli staða fótgangandi. Það kann ekki góðri lukku að stýra að flýta sér í hálku. Ekki halla þér fram, betra er að vera alveg bein/n í baki og jafnvel aðeins fött/fattur – best er að líkja eftir göngulagi mörgæsa, þannig helst jafnvægið best. Ekki vera með hendur í vösum.
Notaðu handrið þegar þú gengur upp og niður stiga, verstu hálkuslysin verða í hálum tröppum. Hugaðu líka að þínu nærumhverfi, berðu sand eða salt á eigin tröppur og stétt til þess að fólk geti öruggt gengið um, ekki síst póstburðarfólk.
Þau allra forsjálustu ganga um með lítinn bauk með salti eða sandi til þess að grípa í ef svellhindranirnar verða óyfirstíganlegar.
Heimildir: Fréttatíminn