Kleinurnar hennar mömmu

Lólý.is kom með þessa æðislegu uppskrift af kleinunum sem við elskum öll svo heitt.

1 kg hveiti
250 gr sykur
100 gr smjörlíki brætt
2 egg
10 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk hjartasalt
2 tsk kardimommudropar
1/4 ltr mjólk
1/4 ltr súrmjólk

Byrjið á því að setja allt þurrefnið í skál og blanda síðan vökvanum hægt og rólega út í og hnoðið saman í hrærivél.Þegar búið er að hnoða deiginu vel saman er því skipt í 4 hluta. Fletjið síðan hvern hluta út með kökukefli þar til það verður c.a. 5 mm þykkt. (Ekki nauðsynlegt að mæla það nákvæmlega)

Það er mjög gott að vera búinn að setja olíuna í pott og hita hana vel áður en kleinurar eru mótaðar svo að hún sé vel kraumandi en þó ekki of heit þegar þið byrjið að steikja þær.

Þegar búið er að fletja deigið út er það skorið í c.a. 5 cm ræmur með kleinujárni og þær bútaðar niður með skáskurði. Gat er gert í miðjuna á hverjum bút og síðan er hvert horn dregið í gegnum gatið.

Þegar feitin er orðin heit þá skulu þið setja hæfilegt magn í pottinn í einu (miða við að kleinurnar komist fyrir fljótandi á yfirborði feitinnar í pottinum. Svo er bara að snúa þeim um leið og þær eru orðnar gullinbrúnar og kippa þeim upp úr um leið og þær eru orðnar svipaðar á litinn báðum megin.

Það er mjög gott að hafa ofnskúffu eða bakka tilbúinn með eldhúsbréfi í til þess að leggja kleinurnar á um leið og þær koma upp úr pottinum svo að mesta feitin renni af þeim.

Ég er á því að kleinurnar hennar mjömmu séu svona extra góðar er vegna þess að hún steikir þær alltaf upp úr kókosolíu.

Kleinur eru líka alltaf bestar heitar svo að það er mjög sniðugt að frysta þær strax nokkrar saman í poka og taka svo bara út úr frysti og beint í ofninn í smá stund eða örbylgjuofninn og bera þær fram heitar. Þá er eins og þú sért alltaf að bera fram nýbakaðar kleinur.

 

Endilega smellið á like við Lólý á Facebook 

loly

SHARE