Ófrjósemisaðgerð karla – herraklipping

Um ófrjósemisaðgerðir á Íslandi gilda lög nr. 25/1975. Þar segir að ófrjósemisaðgerð sé heimil samkvæmt lögum: “Að ósk viðkomandi, ef hún/hann, sem er fullra 25 ára, óskar eindregið og að vel íhuguðu máli eftir því að komið verði í veg fyrir að hún/hann auki kyn sitt, og ef engar læknisfræðilegar ástæður eru til staðar, sem mæli gegn aðgerð.” Hafi viðkomandi ekki náð 25 ára aldri gilda sérstök lagaákvæði.

Til að gangast undir aðgerðina þarf viðkomandi að fylla út og undirrita umsókn um ófrjósemisaðgerð. Umsóknareyðublaðið fæst hjá heimilislækni eða lækni þeim sem framkvæmir aðgerðina. Einnig má nálgast eyðublaðið hér.

Hvernig er aðgerðin framkvæmd?

Fyrir og eftir herraklippingu  

Sjúklingur liggur á bakinu, ytri kynfæri þvegin með sápu og síðan er deyft með grannri nál umhverfis sæðisleiðara og í húðsvæði á pung. Þeir sem þess óska geta fengið verkja- og slökunarlyf í æð. Gerður er 6-7 mm skurður ofarlega í pung og sæðisleiðararnir dregnir fram, brennt fyrir og bundið fyrir þá. Skurðinum er síðan lokað með þræði sem eyðist af sjálfu sér á nokkrum dögum. Aðgerðin tekur yfirleitt um 20-25 mínútur.

Hvað þarf ég að varast eftir aðgerðina?

Ef þú hefur fengið lyf í æð ættir þú ekki að aka sjálfur heim. Taktu því rólega aðgerðardaginn og næsta dag. Ekki hjóla eða stunda íþróttir sem geta reynt óeðlilega mikið á punginn fyrstu dagana eftir aðgerðina. Samfarir eða sjálfsfróun ætti að forðast fyrstu vikuna eftir aðgerðina. Það er í lagi að fara í sturtu næsta dag, en ekki ráðlegt að fara í baðkar eða sund fyrr en skurðurinn er gróinn/lokaður (tekur rúma viku).

Má búast við einhverjum fylgikvillum í kjölfar aðgerðar?

Stundum kemur smá mar og blæðing í pung, sem þá bólgnar lítillega. Flestir finna fyrir vægum þyngslaverk í nára/pung í 1-2 daga eftir aðgerðina. Sýkingar í skurðsári eða pung eru tiltölulega fátíðar. Tæplega 1% þeirra sem gangast undir þessa aðgerð finna þó fyrir langvarandi verk í pung sem hverfur ekki fyrr en eftir nokkra mánuði.
Ristruflun eða breytingar á hormónastarfsemi er ekki hægt að rekja til aðgerðarinnar og karlar hafa eftir sem áður sáðlát með sömu tilfinningu og sæðismagni, en þá án sæðisfrumna. Upplifunin við samfarir á að vera óbreytt.

Hvernig er eftirliti háttað?

Ef spurningar vakna eða ef vandamál koma upp eftir aðgerðina er ráðlegt að hafa samband við skurðlækninn sem framkvæmdi aðgerðina (eða heimilislækni).
Eftir tvo mánuði skal skila sæðisprufu til að kanna hvort aðgerðin hafi verið vel heppnuð. Ráðlegt er að hafa sáðlát í a.m.k. 20 skipti frá því að aðgerðin var framkvæmd og þar til sáðprufu er skilað, því fyrst eftir aðgerðina er enn töluvert magn sáðfruma til staðar í sáðblöðrum sem þarf að “hreinsa út” áður en ófrjósemi er náð. Sæðisprufunni þarf að skila innan einnar klukkustundar frá sæðislosun, en sæðið má ekki kólna undir 20°C, þannig að best er að bera það innan klæða á leiðinni. Sæðisprufu má skila í þvagprufuglasi sem fást í öllum lyfjaverslunum. Sæðisprufunni er skilað á rannsóknastofuna í Glæsibæ, Álfheimum 74.

Notast þarf við aðra getnaðarvörn þar til búið er að staðfesta með sáðprufu að aðgerðin hafi heppnast.

Hversu örugg er aðgerðin?

Sæðisleiðararnir geta tengst eða gróið saman að nýju í um 0,1% tilvika. Slíkt getur gerst jafnvel mörgum árum eftir aðgerðina og er ekkert sem getur með vissu komið í veg fyrir það. Sæðisprufan er samt sem áður afar mikilvæg sem liður í eftirliti og brýnt að skila.

Get ég eignast börn síðar ef þörf verður á?

Hægt er tengja sæðisleiðarana saman að nýju með skurðaðgerð og möguleiki er líka við ákveðna tegund tæknifrjóvgunar. Það er þó ekki hægt að tryggja barneignir að nýju með þessum aðferðum. Gæði sæðisins versna yfirleitt eftir því sem fleiri ár líða frá aðgerð og einnig myndast mótefni sem truflað geta árangurinn.

Greinin er fengin af vefnum renis.is og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur greinar:

Eiríkur Orri Guðmundsson, þvagfæraskurðlæknir

Allar færslur höfundar

 

SHARE