Nauðsynlegt er að vita hvernig parket er á gólfunum áður en hafist er handa við þrif.
Það er mikilvægt að þrífa parketið rétt, bæði til að hámarka endingu þess og svo það líti sem best út. Parket er ekki sama og parket og það ber að hafa í huga áður en hafist er handa við þrif.
Hér eru leiðbeiningar um það hvernig best er að þrífa mismunandi gerðir af parketi.
Lakkað parket
Sópið eða rykmoppið eftir þörfum. Þvoið með mildu sápuvatni og þurrvindið moppuna eða klútinn. Varast ber að láta vætu liggja á lökkuðu parketgólfi. Nota má hvort heldur er vatnsuppleysanlegt bón eða vaxbón. En varast skal að bóna slík gólf oft. Ef lakkið er orðið slitið þarf að pússa gólfin upp og lakka að nýju.
Olíu- eða vaxborið parket
Rykmoppið reglulega. Best er að nota grænsápu, þar til gerða parketsápu eða aðra feita sápu, því fitan mettar gólfborðin. Nauðsynlegt er að olíu- eða vaxbera gólfin nokkuð reglulega annars vilja þau þorna og verða mislit.
Plastparket
Varast skal að bleyta gólfið mikið, þurfi þess á að nota volgt vatn og þurrka jafnóðum. Best er að strjúka yfir með þurri moppu eða ryksuga.
Gerðu rétt
Ef parket er ekki þrifið rétt er hætt við að endingin verði ekki góð.
Heimildir: Fréttatíminn