Sjálfsofnæmissjúkdómar hafa farið ört vaxandi um heim allan síðastliðna áratugi, en misjafnar skoðanir eru á því hvað veldur. Talað er um að það séu til að mynda eiturefni og þungmálmar sem og stress og álag. Konur eru í miklum meirihluta en þó hefur karlmönnum fjölgað all nokkuð síðustu misserin.
Talað er um að vanvirkni í skjaldkirtli sé auðvelt að meðhöndla. Það er auðvelt að gefa fólki bara töflu og segja svo “það er ekkert að þér” þó svo að fólk kvarti um að það sé alltaf þreytt og ómögulegt alla daga. Það er eitthvað mikið að þegar að þúsundir manna um heim allan eru sama sinnis en alltaf er sama viðmótið hjá læknum… “gildin eru normal”. Því miður er fólk með skjaldkirtilssjúkdóma oft stimplað með þunglyndi og eru sett á allskyns óviðeigandi lyf þegar aðalástæðan er í rauninni að lyfjaskammturinn er ekki réttur, eru ekki á réttum skjaldkirtilslyfjum eða ekki er skoðað t.d. ferritín (járn), B-12 og D vítamín.
Vanvirkni í skjaldkirtil er í flestum tilfellum vegna sjálfsofnæmissjúkdóms sem heitir Hashimoto en margir halda að vanvirkni stafi af joðskorti en það er alls ekki raunin. Joð getur einfaldlega talist hættulegt fyrir þá sem eru með sjálfsofnæmi eins og hashimoto og getur það valdið bólgum í kirtlinum sem gæti þá leitt til ofvirkni eða vanvirkni en margar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta.
Skjaldkirtillinn er afar mikilvægt líffæri, miklu mikilvægara en flestir vita. Þeir sem hafa fengið greininguna vanvirkni í skjaldkirtli vita ekki að sjúkdómurinn þeirra heitir eitthvað annað en “vanvirkni eða latur skjaldkirtill”. Það er gott fyrir okkur að vita hvers vegna skjaldkirtillinn er vanvirkur og að sjúkdómurinn sé sjálfsofnæmi. Það er hægt að tengja marga aðra kvilla sem eru að hrjá okkur beint við að skjaldkirtillinn varð van- eða ofvirkur og olli því að líkaminn myndaði með sér aðra sjálfsofnæmissjúkdóma og því óbeint hægt að kenna skjaldkirtlinum um.
Vanþekking, undirmeðhöndlun og lítill áhugi lækna á okkar kvillum er megin kvörtunarefni fólks með Hashimotos/vanvirkni og einnig hefur fólk með Graves/ofvirkni verið undirmeðhöndlað og skömm að ekki skuli vera hlustað á einkenni sjúklinga en bara farið eftir tölum. Læknar eiga að sinna fólki af alúð, hlusta á það og veita því leiðsögn í stað þess að ýta undir vanlíðan þess.
Sjúklingasamtök hafa reynst vel og hjálpað til við að ýta við ýmsu er varðar meðhöndlun, réttindi o.fl. til handa félögum sínum. Það er til félag fyrir skjaldkirtilssjúklinga sem heitir “Skjöldur- félag um skjaldkirtilssjúkdóma” og fólk með skjaldkirtilssjúkdóma ætti að fylkjast á bak við félagið. Því fleiri sem við verðum því líklegra er að á okkur verði hlustað. Að eiga öflugt félag og sterkan talsmann er nauðsynlegt fyrir svo stóran hóp sem að skjaldkirtilssjúklingar eru.
Skjöldur – félag um skjaldkirtilssjúkdóma var stofnað í apríl 2014 af vöskum konum í “Spjallhópi fólks með skjaldkirtilssjúkdóma” á Facebook sem voru búnar að fá nóg af sinnuleysi læknastéttarinnar í garð okkar skjaldkirtilssjúklinga. Félagið hefur verið að eflast og er komið í norrænt samstarf. Einnig fylgist það með félögum og samtökum í öðrum löndum. Félagið er stórhuga og stefnir að því að gefa út fræðsluefni o.fl., en að svo sé hægt þurfum við að eflast all verulega.
Þeir sem vilja gerast félagar geta greitt félagsgjaldið 2500 krónur beint inn á reikning félagsins: 0526-26-550500, kt. 550514-1250 og sent staðfestingu í pósti á skjaldkirtill.is@gmail.com. Frjáls framlög og styrkir eru einnig vel þegin.”
Hlökkum til að sjá ykkur.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.