Hvað er mjólkurofnæmi?

Heilsa.is sérhæfir sig í að bjóða vörur sem stuðla að heilsu og velllíðan en eru líka með heimasíðu sem er með allskonar heilsutengdum greinum.

Mjólkurofnæmi er alls ekki það sama og mjólkuróþol en þessu er gjarnan ruglað saman. Fólk með mjólkuróþol hefur lítið sem ekkert af ensíminu laktasa og getur því ekki brotið niður mjólkursykurinn (laktósa) en sumir geta þó neytt einhverra mjólkurafurða. Þeir sem eru með mjólkurofnæmi þola ekki próteinið í mjólkinni (kaseín, casein) og geta því ekki neytt neinna mjólkurafurða. Þessi tegund ofnæmis kemur einna helst fyrir í börnum og hefur aukist til muna í heiminum á undanförnum árum. Oft er erfitt að greina á milli óþols og ofnæmis en ofnæmið getur elst af sumum á meðan óþolið myndast hins vegar oftast með árunum.

Hvað gerist í líkamanum?

Fæða okkar samanstendur úr prótínum, fitu, kolvetnum, vítamínum, steinefnum og vatni. Þetta er svo allt saman brotið niður og melt í maga og þörmum. Þarmarnir líkjast örfínni síu og hleypa aðeins agnarsmáum, meltum efnum þar í gegn. Þegar fæðan hefur verið melt komast efnin út í blóðrásina og berast þaðan til allra fruma í líkamanum svo hann geti nýtt sér næringuna og orkuna úr þeim. Þarmar ungbarna eru hins vegar ekki fullþroska og geta því stundum efni í stærri einingum sloppið í gegnum þarmaveggina út í blóðrásina, eins og t.d. mjólkurprótín. Líkaminn lítur á þessi efni sem aðskotahluti og vill eyða þeim. Ónæmiskerfið fer í gang á sama hátt og það myndi gera í baráttunni gegn bakteríum og vírusum. Það myndar mótefni gegn mjólkurprótíninu og mótefnin festa sig við ónæmisfrumurnar. Næst þegar líkaminn verður var við prótínið festist það við mótefnið, fruman „springur“ og ofnæmisvaldandi efnið í henni (histamín) losnar út í blóðið.

Þekkt er að ungbörn geta fengið mjólkurprótín sem móðirin hefur neytt með brjóstamjólkinni og þannig myndað snemma ofnæmi gegn mjólkinni. Þurrmjólkurblöndur eru flestar gerðar úr mjólkurdufti og ef barnið hefur myndað ofnæmi gegn mjólk verður þess yfirleitt vart við þurrmjólkurgjöf. Einnig hefur verið sýnt fram á að börn hafi myndað ofnæmi gegn öðrum fæðutegundum sem berast með móðurmjólkinni s.s. eggjum, fiski, skelfiski, hnetum, tómötum, sítrusávöxtum, svínakjöti, súkkulaði og kryddum. Þetta er þó sjaldgæft og er yfirleitt engin ástæða til að forðast þessar fæðutegundir.

Einkenni

Líkt og með mörg önnur ofnæmi eru einkenni mjólkurofnæmis mismunandi eftir einstaklingum. Erfitt er að segja nákvæmlega hvernig þau lýsa sér í hverju einstöku tilfelli eða hversu lengi þau standa yfir. Algengustu einkenni mjólkurofnæmis eru hins vegar magakrampar, niðurgangur, uppköst, óþægindi á hörundi og þrautir í öndunarfærum.

Húð: exem, kláði, roði, jafnvel bólga í andliti.

Magi og þarmar: krampar, hægðatregða, uppköst, niðurgangur, blóð í hægðum.

Öndunarvegur: langvarandi kvef, bólgur í augum (kláði, rauð augu, mikil táramyndun).

Hjá ungbörnum getur mjólkurofnæmi lýst sér í sárum gráti, óróleika, slitnum svefni, slappleika, lystarleysi og hita.

Greining mjólkurofnæmis

Þar sem þessi fyrrnefndu einkenni geta átt við ótal marga aðra kvilla er ráðlegt að fá staðfestingu á því að um mjólkurofnæmi sé að ræða. Það er hægt að gera með því að sneiða hjá öllum mjólkurvörum í um 2 vikur og byrja svo aftur að neyta þeirra (hægt og rólega). Hafi einkennin alveg horfið á þessum tveimur vikum en koma aftur þegar mjólkurvaranna er neytt má gera ráð fyrir að líkaminn þoli ekki mjólkina. Gott er að byrja á að borða ost (t.d. Gouda) þar sem enginn laktósi er í honum og því hægt að útiloka mjólkuróþol komi einkennin samt sem áður. Eigi að kanna þetta í sambandi við exem eða önnur húðvandamál gæti þurft að sneyða hjá mjólkurvörum í 4-8 vikur (á jafnt við börn sem fullorðna). Skynsamlegt er að gera þetta í samráði við lækni, grasalækni eða næringarfræðing.  Þar sem erfitt getur reynst að greina á milli hvort um sé að ræða
mjólkuróþol eða -ofnæmi er einnig hægt að taka blóðprufu eða gera ofnæmispróf á húðinni. Þá er örlítlu af ofnæmisvaldandi efninu sett inn í húðina og viðbrögð hennar athuguð.

Leiki grunur á að ungbarn sem aðeins fær brjóstamjólk hafi ofnæmi fyrir mjólk, er móðurinni ráðlagt að sleppa mjólkurvörum í 3-4 vikur og kanna þannig hvort grunurinn eigi við rök að styðjast.

Mataræði

Eins og bent var á í marshefti Heilsupóstsins um mjólkuróþol, er úrvalið stöðugt að aukast af vörum sem koma í staðinn fyrir mjólkurafurðir. Því er auðvelt að neyta fjölbreytts mataræðis án mjólkur.

Engin bætiefni fyrirbyggja né hjálpa við mjólkurofnæmi. Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.

Heilsa á Facebook

SHARE