Hvern dreymir ekki um að fara til útlanda? Ég er a.m.k. með ferðasýki á háu stigi, og ég er ein af þeim sem vil eiga fyrir hlutunum, og helst ef það er hægt ekki missa svefn yfir vísa-reikningum sem dettur inn eftir heimkomuna. En hvernig?
- Byrjaðu á að skoða flug tímanlega og taktu þér nokkra daga í það (sem sagt ekki stökkva á fyrsta flugið). Við fjölskyldan fórum til Kanada síðasta sumar, fórum út í seinnipart júlí og vorum í 3 ½ viku. Við byrjuðum að skoða flug í sept. árið áður, eyddum viku í að skoða hinar og þessar síður og enduðum á flugi sem var helmingi ódýrara en fyrsta flugið sem við fundum. Sama regla gildir um hótelin.
- Þegar þú ert búinn að bóka flugið farðu þá að safna gjaldeyri. Ég nota 4 umslaga peningakerfið (þ.e. þegar reikningar hafa verið borgaðir um hver mánaðarmót þá tek ég út restina og skipti honum í 4 umslög, eitt umslag fyrir hverja viku) og allur afgangspeningur fer í gjaldeyrisforðan. Og trúið mér, það er ótrúlegt hvað maður eyðir minna þegar maður er með pening, ekki kort (viltu í álvörunni skipta 5000 kr og kaupa þér súkkulaði?). Einnig nota ég dósapening, og bara allan pening sem ég á afgangs. Ég geri líka matarplan sem ég mæli 100% með, þú sparar ótrúlega á því. Láttu fólk líka vita að þú/þið séuð að safna fyrir þessu, ég varð t.d. fertug stuttu áður en ég fór til Manchester í stelpnaferð í vor og það eina sem ég bað um (og fékk) í afmælisgjöf var gjaldeyrir. Mundu bara margt smátt gerir eitt stórt, og þegar peningurinn er kominn í gjaldeyrisbaukinn, þá er bannað að nota hann í eitthvað annað (sama hvað þig langar mikið í pizzu eða bíó, ekki snerta peninginn).
- Ef þig vantar eitthvað fyrir ferðina þá getur þú sparað ótrúlegar upphæðir á því að panta það í gegnum netið (og vegna þess að þú bókaðir flugið svo tímanlega þá hefur þú alveg tíma til að bíða eftir hlutnum). Við pöntuðum farangursvigt, veski sem eru með vörn þannig að það er ekki hægt að lesa af kortunum bara við það að ganga fram hjá manni, og hitt og þetta handa börnunum.
- Athugaðu strax hvort að vegabréfið sé gilt (nei, ekki hugsa „ég held….“). Við endurnýjuðum vegabréfin okkar í desember (þó að við værum ekki að fara fyrr en í júli) og sluppum þannig við hækkunina sem varð um þau áramót). Að borga fyrir flýtiafgreiðslu til að fá endurnýjun á vegabréfi finnst mér vera blóðpeningur.
- Planaðu hvað þú ætlar að gera úti. Ef þú ætlar í einhverja skemmtigarða eða eitthvað í þeim dúr athugaðu þá hvort að þú getir fengið miðann ódýrara með því að borga fyrirfram. Þegar ég og maðurinn minn vorum barnlaus þá fórum við yfir langa helgi til London. Við vissum hvað við vildum sjá og vorum búin að plana það fyrirfram þannig að við þurftum ekki að eyða dýrmætum Londonartíma í að plana eftir að við vorum komin út, heldur vorum við komin með hvað væri nálægt hvort öðru og gátum þannig séð allt sem við vildum sjá á ótrúlega stuttum tíma.
- Ef þú getur, verslaðu það sem innfæddir versla. Allir minjagripirnir okkar frá Kanada voru t.d. keyptir í dollarabúðunum, ekki í þessum dýru minjagripabúðum sem eru alls staðar. Og ég mæli alveg með Kanadíska Costco til að kaupa í matinn.
Ég vona að þið getið notað eitthvað að þessu og endilega kommentið ef þið hafið fleiri ráðleggingar.
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.