Ég hafði lengi ætlað að gera eitthvað til að sýna uppáhalds fánana okkar, þann íslenska, indverska og tékkneska og þegar ég sá eina af mínum uppáhalds youtuber-unum búa til Bandaríska fánann úr viðarblokkum þá vissi ég að ég yrði að gera eitthvað svipað.
Ég keypti 4 pakka af mjóum spýtum (6 spýtur í hverjum pakka) en þessi prik eru ætluð til þess að merkja jurtir í garðinum (alltaf að hugsa út fyrir boxið). Ég keypti líka pakka af stimplapúðum í Tiger (var ótrúlega ánægð þegar ég sá að allir litnir sem ég þurfti voru í sama pakkanum).
Ég raðaði spýtunum saman þannig að oddmjói endinn snéri út, bjó til hjarta-mót úr dagblaði og teiknaði hjartað á spýturnar.
Svo sagaði ég og pússaði þangað til að það hafði fæðst hjarta.
Svo teiknaði/litaði ég fánana á spýturnar með stimplunum. Þið getið auðvitað notað málingu, en ég vildi ekki hafa litina skæra, ég vildi að viðurinn kæmi greinilega í gegn. Svo fór ég yfir brúnirnar á spýtunum með brúna stimplinum til að fá enn eldra útlit, ég notaði líka brúna stimpilinn og eynapinna til að skerpa á útlínunum, til að búa til merkið í miðjunni á Indverska fánanum notaði ég líka eyrnapinna og dökkbláa stimplapúðann. Því næst klippti ég út annað hjarta úr þykkum bylgupappír, passaði mig á því að hafa það aðeins minna en viðarhjartað.
Svo límdi ég spýturnar á pappann með elsku límbyssunni minni, límdi króka aftan á og hengdi upp.
Ég viðurkenni alveg að þetta tók tíma, en ég er rosalega ánægð með útkomuna.
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.