Ég veit að móðir gerir aldrei upp á milli barnanna sinna, en ég verð að viðurkenna, þetta er eitt af mínum uppáhalds.
Það sem þú þarft til að gera þetta flotta veggskraut er viðarplatti (ég keypti þennan platta í Rauða krossinum), krókur, snæri, borði, krókur til að hengja upp krukkuna og til að hengja upp plattann, blóm, málning og pensil (ef þú vilt mála plattann, fer allt eftir smekk), lítil sería og svo auðvitað límbyssan og skæri.
Ef þú vilt mála plattann þá byrjar þú á því og þar sem ég vildi breyta um lit þá byrjaði ég þar (málaði plattann eftir að ég hafði pússað af textann). Ég festi svo krókinn frekar ofarlega fyrir miðju (boraði hann inn) og svo festi ég krók aftan á plattann (notaði nógu mikið af heitu lími svo að þetta haldist almennilega).
Ég límdi borða utan um krukkuna, bjó svo til slaufu og límdi á krukkuna. Ég vafði snæri nokkrum sinnum utan um hálsinn á krukkunni og batt svo nokkra hnúta en hafði pínu slaka á snærinu. Svo setti ég nokkra dropa af lími til að snærið færi ekki á flakk (gerði það aftan á krukkunni þannig að það sæist ekki).
Svo kveikti ég á seríunni, setti hana ofan í krukkuna, bætti við blómum og upp á vegg. Ótrúlegt hvað hægt er að gera fyrir vel innan við 500 kr.
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.