Þekktu mig, þekktu dótið mitt

Allir sem stunda áhugamálið sitt að ráði, sama hvaða áhugamál það er, eiga sín uppáhalds tæki. Málarinn getur ekki málað með öðru en þessari málningu og þessum penslum, þessi sem syndir á hverjum degi finnst þessi sundföt vera algjörlega best og þeir sem ganga á fjöll stíga ekki eitt skref án þess að vera í uppáhalds skónum sínum. Þetta er líka þannig með föndrara og í dag ætla ég að kynna ykkur fyrir þeim tólum og tækjum sem ég nota helst.

Límbyssa og límstaukar: Ég veit að ég tala mikið um límbyssuna mína en það er líka vegna þess að við erum vægast sagt mjög nánar. Það líður varla sá dagur þar sem ég nota hana ekkert, en auðvitað koma sumir dagar þar sem ég nota hana mjög mikið (byssan mín er t.d. mjög upptekin í desember). Það er hægt að fá tvennskonar límbyssur, eða réttara sagt byssur fyrir litla eða stóra límstauka. Ég á bæði, en ég nota eiginlega eingöngu þessa fyrir stóru staukana, finnst hún einfaldlega betri. Staukana panta ég að utan. Ég hafði alltaf keypt þá hérna en þeir eru miklu ódýrari úti í hinum stóra heimi.

Góð skæri: Góð skæri eru hrein og bein nauðsyn. Ég er með sérstök föndurskæri og svo önnur sem ég nota bara þegar ég er að klippa til efni. Og bara svo að það sé á hreinu, ellefta boðorðið er „Eigi skulið þér klippa annað með klæðisskærum en klæði.“

Lím: Lím er ekki það sama og lím. Ef þú ert að líma t.d. gler á gler þá mæli ég 100% með E6000. Ég pantaði það að utan en ég veit ekki hvort að það fæst á okkar fallega landi. Þetta lím er MJÖG sterkt, en það verður að gefa því góðan tíma til að taka sig, alveg 24 klukkustundir. Ef þú ert í pappírsföndri þá mæli ég með tvöföldu límbandi og já, ég panta mitt að utan, en þetta fæst líka í flestum föndurbúðum hérna. Svo er það límbyssan, sjá allt um það hér að ofan. Ef þú ert með við á við þá er bara eitt svar, trélím.

Reglustikur: Ef þú ert eins og ég þá verða hlutirnir að vera akkurat, það sem á að vera í miðjunni verður að vera í miðjunni, ekki 1 cm til hægri. Þess vegna elska ég að nota þessa reglustriku. Hún er hönnuð fyrir bútasaum, en ég verð að viðurkenna að það eru ekki mörg verkefni sem ég klára án þessarar elsku.

SHARE