Lukkutröll sem réði ekkert við hárið á sér!

Hver kannast ekki við að ráða ekkert við hárið á sér og eiga fyrir vikið marga vonda hárdaga!

Ég hef svo oft verið í erfiðleikum með mitt hrossahár, svo ég bað hana Birnu hárgreiðslumeistara um ráðleggingar og þær svínvirkuðu. Svo ég spurði hvort hún ætti ráð fyrir lesendur hér á hun.is:

Hvaða sjampó og næringar hentar hvaða hári?

Áður en ég lærði hársnyrtiiðn vissi ég ekkert um hársnyrtivörur eða hvernig ég ætti yfirhöfuð að ráða við rolluhárið mitt sem er ansi liðað. Aðferðir mínar við að finna bestu lausnirnar þekkja eflaust margir.
Ég trítlaði í búðina til að reyna að finna lausn á hárinu sem vildi alls ekki láta af stjórn.
Í búðinni stóð ég spennt fyrir framan sjampórekkann og byrjaði rannsóknarvinnu mína. Ég opnaði hvern brúsann af fætur öðrum af sjampóum og næringum í fallegustu umbúðunum, þefaði mig því næst áfram þar til ég fann par af sjampó og hárnæringu sem lyktaði guðdómlega og þar með var rannsóknarvinnu minni lokið. Ég fór heim alsæl og beint í bað til að prufa þessa himnasælu sem ég hafði keypt mér. Eftir baðið ilmaði ég svo dásamlega að ekki var þörf á einum einasta ilmvatnsdropa. En svo kom að stund sannleikans hvort fegurðar- og lyktarskyn mitt hafði hitt á réttu vörurnar fyrir hár mitt. Ég leit í spegill og vitir menn fyrir framan mig sá ég risa víravirki. Skelfingu lostinn reyndi ég að greiða í gegn um lubbann en ekkert gekk.
Ég eyddi fullt af pening í þesskonar búðarferðir og komst að lokum að þeirri niðurstöðu að hárinu á mér væri ekki viðbjargandi. Ég yrði alltaf lukkutröll sem ég var ekki allskostar ánægð með.
En í dag er ég hins vegar orðin mjög sjóuð í minni iðn og hef lausnir sem henta mínu hári sem ilma stórkostlega og eru girnilegar á að líta. Ég nýti liðina mína og nota góðar vörur sem henta mínu hári, sjampó, næringu og mótunarefni. Ég verð þó að viðurkenna að stundum kemur lukkutröllið upp í mér og hárið stendur í allar áttir þegar ég nenni ekki að hafa fyrir því, það er bara í fínasta lagi ef kona á góða teygju.
Ef þið eigið við sama vandamál að stríða og ég átti þá langar mig að gefa ykkur nokkur tips um hvernig vörur henta hvaða hártýpum.

Þurrt ólitað hár:

• Veljið rakagefandi sjampó og næringu.

Litað hár:

• Veljið sjampó og næring sem er sérhannað fyrir litað hár og inniheldur prótein.
Slíkar sérhæfðar línur viðhalda litnum mun lengur í hárinu en ella.

Strípað og litað ljóst hár:

• Best er að nota prótein sjampó og næringu sem merkt eru sérstaklega fyrir ljóst hár.
• Einnig ef hárið vill gulna er gott að nota fjólublátt eða blátt sjampó til að draga úr gulum tón. Nauðsynlegt er að fara eftir leiðbeiningum á pakkningu svo hárið verði ekki blátt.

Fíngert, lint hár:

• Frábær sjampó og næringar sem víkka út hárstráið þannig að hárið lítur út fyrir að vera þykkara og meira henta sérlega vel fyrir fíngert og lint hár.

Liðað hár:

• Liðað hár öskrar á raka og þess vegna hentar rakagefandi sjampó og næring frábærlega vel.

Liðað og litað eða strípað hár:
• Rakagefandi sjampó og næringu til skiptis við prótein sjampó og næringu hentar vel. Liðað hár skortir oftast raka og þegar búið er að strípa eða lita hárið er þörf á próteinum.

Mestu mögulegu gæði á sjampóum, næringum, djúpnæringum og mótnarvörum er að finna á hársnyrtistofum. Menntaðir hársnyrtar sem þar vinna veita frábæra ráðgjöf um hvað hentar best fyrir þitt hár. Hættum að þefa eftir bestu hárvörunum eins og ég gerði og biðjum um hjálp hjá fagfólki.

Birna Jónsdóttir
Hársnyrtimeistari

SHARE