Móðurhlutverkið er bókstaflega það sem kemst næst því að vera dans á rósum í mínum huga – það er trylltur dans á nýskornum rósum með fáránlega beyttum þyrnum sem að maður sér oft ekki einusinni! Oft tekur maður dásamlegann snúning á mjúkum rósablöðum en oftast er maður í einhverjum stepp-línudansi á stilknum sem er vitanlega þakinn þyrnum vítt og dreift.
Þegar að maður hefur því traðkað á þyrnum í nokkurn tíma er ekkert óeðlilegt að það komi nokkur tár eða að maður verði aumur og vilji bara aðeins hvíla sig!
þar var ég á föstudaginn. Búin að eyða meirihluta dagsins í símanum að reyna að afgreiða erfið mál – og það gekk illa.
Ég lenti á einhverjum mesta dóna sem ég hef á æfi minni talað við sem að bæði særði mig og gerði lítið úr. En þrátt fyrir margar öndunaræfingar og meiriháttar tilraunir til þess að líða betur skynjuðu stelpurnar samt streituna, þreytuna og pirringinn sem ég var að glíma við.
Ég gerði mitt besta við að vera þolinmóð, en það virkaði tæplega. Þegar kom svo að kvöldmatnum stökk ég í að elda handa okkur fisk í raspi, kartöflur og lauksmjör.
Á meðan að ég stóð í því náðu stelpurnar að opna barnalæsingarnar á fatakommóðunni þeirra og rífa úr henni öll þau föt sem þær eiga (sem er töluvert magn). En ég ákvað að ég ætlaði ekki að verða reið yfir því, Síðan tókst þeim að ræna af mér símanum og hringja eins og 5 myndsímtöl í fólk sem varð alveg jafn hissa og vandræðalegt og ég, en eins og með fötin þá ákvað ég að spara það litla sem ég átti eftir af geði og verða ekki reið.
Ég gekk frá því sem ég gat og græjjaði matinn sem var til mikillar furðu fullkomið magn handa okkur þremur á diskana, nóg fyrir alla og enginn afgangur! Ég brytjaði, stappaði og gerði allt klárt til átu.
Við settumst til borðs og hófum að skófla upp í okkur þessum fína mat, en ég hugsa að ég hafi bara verið búin að taka sirka þrjá bita þegar að ég fór að finna brunalyktina frá pönnunni sem að ég hafði gleymt á sjóðheitri hellunni. Svo ég stökk og byrjaði að verka brunarústirnar af henni.
Ég var þó ekki búin þegar að mér varð litið á Tótu mína sem stóð á stólnum sínum nakin, með bleyju í annari hendinni, gaffal í hinni og einhvern mesta prakkarasvip sem sögur fara af.
Við náðum augnsambandi á meðan hún sveiflaði bleyjunni sinni og sópaði þar með diskunum okkar brosandi af borðinu.
Maturinn þyrlaðist af diskunum og lenti á gólfinu við stólinn hennar.
Ég hljóp af stað til að bjarga matnum aftur upp á diskana svo við gætum borðað – en var of sein.
Bunan fossaði sterk niður lærin áður en hún brotnaði á stólbrúninni og úðaðist í allar áttir.
Áður en ég vissi af lá því allur maturinn sem ég hafði eldað hlandmarienarður á gólfinu fyrir neðan nakið barnið mitt sem fannst hún verulega fyndin.
Ég dró djúpt inn andann og barðist við tárin sem ég vildi ekki þurfa að sýna þeim. Svo þreif ég hladblauta dóttur mína áður en ég sótti ruslafötuna svo ég gæti hent matnum.
Ég kraup á gólfinu og reyndi að hughreysta sjálfa mig á meðan ég horfði á eftir hlandmarineruðum matnum okkar í ruslið og ákvað hvað ég gat gefið þeim í staðin.
Það var mjólkurglasið sem sprengdi mælinn, er það datt úr litlu höndunum á borðið og mjólkin gusaðist yfir mig.
Mamman sem sat rennandi blaut á gólfinu fór að gráta.
Stelpurnar flögruðu í fangið á mér, sussuðu, kysstu og héldu utan um mig þar til að ég hafði jafnað mig. Ég útskýrði fyrir þeim að stundum þyrftu mömmur líka að gráta eins og þær, að allir grétu og að það væri gott að gráta – þá liði manni miklu betur eftir á!
Síðan á föstudaginn hefur svo eldri stelpan mín látið alla sem við hittum vita af því að mamma hafi sko farið að gráta og að hún hafi þurft að hugga mömmu sína sem var bæði með hor og ekka.
„Mamma var að skæla, mikið!“
Ég skammaðist mín niður í rassgat fyrir að barnið væri að segja frá þessu! Að ég hafi bara setið á gólfinu og grátið! Að litlu stelpurnar mínar hefðu huggað mig og hughreyst! Að í eitt skipti hafi það ekki verið öfugt!
Ég fann mig meira að segja nokkrum sinnum knúna til þess að gera lítið úr þessu sem hún hafði að segja eða að ljúga,
„iss, Tæta mín, mamma bara meiddi sig smá“
Hvað gat ég gert til að krakkinn hætti að segja fólki frá því að mamma hennar væri bara einhver aumingi sem að léti börnin sín hugga sig eins og það væri þeirra ábyrgð?
Ekkert!
Því að það var bara alls ekkert það sem barnið var að segja og enginn af þeim sem að svöruðu barninu hugsaði það.
Dóttir mín var að segja þetta því hún var stolt af sjálfri sér að hafa getað og mátt hugga mömmu sína sem hefur alltaf huggað hana og afþví að henni fannst það frábært!
Ég fór því að skoða það aðeins hvað það var sem að fékk mig til að halda annað. Ekki voru það viðbrögð fólksins sem að fengu að heyra þetta í óspurðum fréttum – því að þau tóku því öll bara ósköp létt.
Ég áttaði mig á því að ég brást svona við vegna þess að ég óttaðist viðbrögð fólks og að fólk færi að setja út á mig.
Ég áttaði mig líka á því að ég hafði óvart búið mér til þessa ranghugmynd að ég yrði að vera stöðugur klettur sem hræddist ekkert og sýndi enga veikleika fyrir framan börnin mín vegna þess að ég var alin upp af þeirri kynslóð.
Kynslóðinni sem ól af sér þessa blessuðu „aumingjakynslóð“ eins og svo margir kjósa að kalla hana. Tilfinningarnar okkar voru einkamál og ekki fyrir neinn annan að vita.
Það er í rauninni svo stutt síðan að fólk fór að viðurkenna og ræða tilfinningarnar sínar, hvað þá að sýna þær!
Áður var allt einkamál og ekkert svona rætt!
Í dag er bara annar tími, tími þar sem við deilum meira og tillfinningarnar okkar eru frjálsari og dóttir mín sem er ekki einusinni orðin fjögurra ára tókst að minna mig á það með þessu!
Mamma varð líka, eins og hún og systir hennar verða stundum, bæði þreytt og réði ekki við allar tilfinningarnar sínar. Þær fengu að hugga mömmu sína eins og mamma hefur huggað þær frá degi eitt og stoltið sem hún fann og sýndi var dásamlegt.
Það var því þetta atvik sem sýndi mér það fyrir víst, að kynslóðin sem að við erum að ala af okkur núna verður stórkostleg! Óhrædd við tilfinningarnar sínar og annara og til í að samþykkja hvern og einn einstakling eins og hann er.
Munum að við erum ekki vélmenni og leyfum börnunum okkar að sjá að við finnum, eins og þau, allskonar tilfinningar sem eru bæði eðlilegar og heilbrigðar! Nýtum tækifærið og sýnum þeim okkar aðferð/ir til að vinna úr þeim, því að það er þannig sem að við búum til örugga og sterka einstaklinga!
Við gerum það nefnilega ekki auðveldlega með því að sýna þeim að við séum stöðugt á hærra plani en þau. Við gerum það með því að kenna þeim að við séum öll á sama plani, (jafningjar) að við séum öll með allskonar tilfinningar og að við eigum öll skilið jafn mikla virðingu og mikinn skilning, hvort sem að það er gamall, fullorðinn eða barn.
Anna Karen er tveggja barna móðir búsett í höfuðborginni. Hún er mikill húmoristi og elskar allt sem má kalla „tabú“.
Anna er mjög ofvirk og gleymin en er með hjartað um það bil á réttum stað. Jákvæðni og gleði er það sem hún vill deila til allra þeirra sem lesa greinarnar hennar ásamt því að markmið hennar er að taka þátt í að stuðla að bættri líkamsímynd og betra sjálfstrausti í samfélaginu.
„Að sýna hlýju, þolinmæði og skilning er með því dýrmætasta sem við getum gefið. En aðeins ef við getum gefið okkur það sjálf“- AKS