Fylltir tómatar

Á heimasíðunni Allskonar er að finna mjög margar góðar uppskriftir og við rákumst á þessa þarna inni.

Í þennan rétt borgar sig að finna vel rauða og þroskaða tómata til að þeir verði sætir á bragðið. Ef þú finnur ekki nægilega þroskaða tómata þá geturðu sett smávegis hunang innan í hvern tómat með saltinu og pipar til að fá smá sætt bragð, en þeir verða aldrei eins sætir á bragðið og vel þroskaðir tómatar. Það er líka sniðugt að blanda saman osttegundum, nota parmesan, eða mjúkan geitaost, brie eða gráðost. Þarna getur þú notað annaðhvort ímyndunaraflið eða hreinlega það sem þú rekst á í ísskápnum.

Fylltir tómatar fyrir 4

  • 8 tómatar
  • salt
  • svartur pipar, nýmalaður
  • 150 gr brauðmylsna
  • 1 dl mjólk
  • 2 egg, slegin saman
  • 2 hvítlauksrif, marin
  • 4 msk ferkar kryddjurtir, saxaðar
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 6 msk rifinn ostur
  • ólífu olía

Undirbúningur: 15 mínútur

Eldunartími: 30 mínútur

Hitaðu ofninn í 180°C.

Skerðu ofan af tómötunum og hreinsaðu innan úr þeim með skeið. Geymdu  og notaðu í salat seinna eða blandaðu með kotasælu ofan á hrökkbrauð.

Kryddaðu tómatana að innan með salt og pipar og settu í eldfast mót. Gott er að setja smá olíu í mótið fyrst svo að tómatarnir festist ekki við.
Til að útbúa fyllinguna þá seturðu brauðmylsnuna, mjólk og egg í skál og hrærir vel. Bættu þar út í hvítlauk, kryddjurtum og lauknum. Kryddaðu til með salti og nýmöluðum pipar.

Settu fyllinguna í tómatana og stráðu svo rifnum osti yfir. Settu nokkra dropa af ólífu olíu yfir hvern tómat áður en þú stingur réttinum inn í ofninn.

 

Bakaðu þar til tómatarnir eru mjúkir eða í 25-30 mínútur.

Berðu fram með góðu salati.

Endilega smellið einu like-i á

SHARE