Þessi dásemd kemur frá henni Lólý sem er að okkar mati snillingur í matargerð.
Kíktu bara á http://loly.is
Heilsteiktur kjúklingur getur verið svo ótrúlega djúsí og bragðmikill. Ég á alveg frábæran pott úr terracotta leir sem ég keypti mér í Habitat fyrir löngu síðan. Maður þarf auðvitað ekki að eiga svona pott til að steikja kjúklinginn í en ég nota alltaf þennan pott í þetta.
1 heill kjúklingur
1 appelsína skorin í báta
3 cm ferskt engifer skorið í bita
4 hvítlaukar heilir litlir
ólífuolía
100 gr smjör
kjúklingakrydd
Hoisin sósa
Ferskt rósmarín
2 rauðlaukar
Forhitið ofninn í 180°C.
Takið kjúklinginn og skolið hann og þerrið. Setjið inn í hann appelsínubátana, 2 hvítlauka skorinn í bita, engiferið og rósmarín stilk. Dreifið olíu yfir allan kjúklinginn og kryddið hann vel að utan.
Leggið kjúklinginn í pott eða eldfast mót og hellið hoisin sósunni yfir. Skerið rauðlaukinn í báta og dreifið í kringum kjúklinginn ásamt rósmarín stilkum og hinum tveimur hvítlaukunum.
Skerið smjörið í sneiðar og setjið ofan á kjúklinginn. Ef þið notið eldfast mót þá er gott að setja álpappír yfir kjúklinginn svo að hann brenni ekki en það er gott að taka álpappírinn af síðasta hálftímann og eins er þá gott að taka lokið af pottinum á sama tíma.
Skellið pottinum inn í ofninn og eldið þangað til að kjarn’eg hitinn í honum nær 70°C og þá er gott að taka lokið af, hækka í ofninn í 220°C og grilla hann í 15 mínútur.
Ég var með glænýjar íslenskar kartöflur sem ég setti í eldfast mót með ólífuolíu og kryddaði með hvítlauk og timjan.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!