Eins og lesendur vita þá er Lólý okkar alger snillingur í eldhúsinu og þessi uppskrift kemur af vefnum hennarhttp://loly.is
Það er alltaf ljúft að gera lasagna og þess vegna er þetta smá tilbreyting við þetta týpíska lasagna. Þetta finnst mér alltaf alveg rosalega gott að gera og ekki skemmir fyrir ef það er nægur afgangur fyrir daginn eftir.
Uppskrift:
4 kjúklingabringur
1 gul paprika
1 rauð paprika
1 rauðlaukur
1 hvítlauksrif
1 krukka salsa sósa
1 dós gular baunir
1 dós rjómaostur
1 bréf burritos mix
1 pakki burritos kökur
1 poki rifinn ostur
Mexíkó ostur rifinn
1 dós sýrður rjómi
Hrísgrjón
Brauð
Nachos flögur
Aðferð:
Skerið kjúklingabringurnar í bita og kryddið með burritos kryddinu.
Steikið á pönnu upp úr olíu þangað til að kjúklingurinn er steiktur í
gegn. Takið af pönnunni og geymið í skál. Skerið grænmetið í bita og
steikið á pönnunni ásamt hvítlauknum sem er gott að pressa og kryddið
með salti og pipar. Þegar grænmetið er orðið mjúkt er það tekið af
pönnunni og blandað saman við kjúklinginn í skálinni.
Rjómaosturinn og salsasósan eru sett í pott og blandað saman við vægan
hita í nokkrar mínútur eða þangað til að blandan er orðin heit. Hellið
þá blöndunni yfir kjúklinginn og grænmetið og blandið vel saman.
Raðið í eldfast mót, tortillaköku, kjúklingablöndunni og smá ost yfir, endurtakið svo aftur tortillakökur, kjúklingablanda og ostur yfir enda svo á tortillaköku og setja mikinn rifinn ost yfir, Setjið í 200°C heitann ofninn og bakið í 15-20 mínútur.
Meðlæti:
Sjóðið hrísgrjón og blandið gulum baunum saman við þau og hafið með ásamt sýrða rjómanum. Gott er að hafa hvítlauksbrauð eða annað brauð með þessu og nachos flögur.