Þessi æðislega uppskrift kemur frá Cafe Sigrún. Dásamlega góðar og hátíðlegar.
Mig langaði mikið að kalla þessar truflur ástarkúlur eða ánægjudúllur eða gleðibolta….því þær eru svo góðar. Og þær gera mig svo glaða. Það þarf svo sem ekki mikið til, en ég verð svo hræðilega glöð af því að borða eitthvað svona ljúffengt. Það er auðvelt að gera trufflurnar vegan og mjólkurlausar með því að nota eingöngu dökkt súkkulaði. Gera má trufflurnar með góðum fyrirvara t.d. fyrir veislur og boð en ég hef gert þessar trufflur í nokkur ár og boðið upp á páskum, jólum, afmælum og útskriftum. Ef mig langar að vera viss um að einhverjum líki við mig, fer ég gjarnan með trufflurnar með mér…en svo eru sumir sem missa af því að vita hvað ég er *hóst* frábær því stundum er ég búin að klára blessuðu trufflurnar áður en ég kemst með þær á staðinn. Lái mér það hver sem vill!
Heslihnetutrufflur
Um 40 trufflur
Innihald
- 130 g heslihnetur (þar af 10 g saxaðar smátt)
- 60 ml hlynsíróp, hreint
- 1 tsk vanilludropar
- ½ tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
- 130 g dökkt súkkulaði, með hrásykri
- 130 g ljóst súkkulaði, með hrásykri
- Nokkrir molar hvítt súkkulaði, með hrásykri til að skreyta með
- Lófafylli kókosmjöl og nokkrir dropar rauðrófusafi til að skreyta með
Aðferð
- Þurrristið heslihneturnar á heitri pönnu þar til hýðið fer að dökkna og losna af. Látið kólna, nuddið lausa hýðið af með fingrunum. Saxið 10 grömm af hnetunum smátt og setjið til hliðar.
- Setjið 120 grömm af heslihnetunum á pönnu ásamt hlynsírópi og salti og hrærið vel. Látið hlynsírópið sjóða á meðalhita í 10-12 mínútur og hrærið oft, þangað til sírópið hefur dökknað og þykknað. Látið kólna í um 30 mínútur á pönnunni. Skafið ofan í matvinnsluvélarskál. Maukið í um 3-4 mínútur eða þangað til blandan fer að líkjast grófu hnetusmjöri. Setjið maukið til hliðar.
- Bræðið ljósa súkkulaðið yfir vatnsbaði: Setjið svolítið vatn í lítinn pott, setjið gler- eða málmskál ofan á hann þannig að skálin sitji á brúnunum en snerti ekki vatnið því þá hleypur súkkulaðið í kekki og er ónýtt nema kannski saxað í möffins eða eitthvað slíkt. Brjótið súkkulaðið í jafnstóra bita til að tryggja jafna dreifingu hitans og setjið ofan í skálina. Bræðið yfir mjög lágum hita því hár hiti brennir súkkulaðið. Takið skálina af hellunni, hrærið varlega og bætið hesluhnetumaukinu út í. Hrærið vel. Ef blandan er nokkuð stíf má útbúa kúlur strax en ef hún er mjög mjúk má setja hana í grunnt og vítt plastbox og láta stífna í kælisskáp í um 30-45 mínútur.
- Bræðið dökka súkkulaðið yfir vatnsbaði. Mótið litlar kúlur úr heslihnetumaukinu (ég nota pínulitla ísskúluskeið) og dýfið svo í súkkulaði. Setjið á vírgrind (ef þið eigið svoleiðis) til að súkkulaðið renni aðeins af. Dreifið svolitlu af smátt söxuðu heslihnetunum yfir á meðan súkkulaðið er blautt. Áður en súkkulaðið storknar alveg skuluð þið færa trufflurnar yfir á disk og svo í kæliskápinn. Berið þær fram við stofuhita.
- Bræða má hvítt súkkulaði til að skreyta trufflurnar með en einnig er gaman að hræra nokkrum dropum af rauðrófusafa í kókosmjöl, láta svo þorna og skreyta trufflurnar með því.
Gott að hafa í huga
- Ef afgangur verður að bráðnu súkkulaðinu er upplagt að saxa rúsínur, döðlur og meira af hnetum, blanda því saman við súkkulaðið, hella í grunnt nestisbox, kæla og brjóta svo í bita.
Endilega smellið einu like-i á Café Sigrún á Facebook.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.