Vinkona mín sagði mér fyrir stuttu frá leik sem henni þótti æðislegur og ég ákvað að kíkja á hann. Þessi leikur heitir Candy Crush Saga og er einfaldur nammileikur þar sem þú átt að mynda línur með 3 eða fleiri úr allskonar lituðu sælgæti. Þú getur spilað hann á Facebook og þú getur séð hvar aðrir Facebook vinir þínir eru staddir í leiknum og hversu mörg stig þeir hafa fengið og svo framvegis.
Þetta hljómar ekki eins og merkilegasti leikur sem til hefur verið en hann hefur greinilega eitthvað því þeir sem hafa spilað hann verða mjög háðir honum. Það er greinilegt að allir geta hrifist af þessum leik því ólíklegasta fólk getur orðið alveg heilaþvegið af honum og spilað hann myrkranna á milli, bæði karlar og konur.
Ég hef sjálf átt mín augnablik með þessum leik og eytt meiri tíma en ég kæri mig um að viðurkenna í að klára borðin sem eru erfiðari en önnur. Það hafa margir leikir verið í gangi á Facebook sem hafa tröllriðið öllu en mér finnst Candy Crush Saga hafa náð nýjum hæðum.
Fólk hefur verið of upptekið við þennan leik til þess að stunda kynlíf hef ég heyrt og vanrækt heimilið vegna hans, erum við þá ekki að tala um að þessi leikur sé verkfæri djöfulsins?
Hafið þið verið að spila þennan leik?
Líf og fjör!
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.