Á vefsíðunni vefjagigt.is sem er fræðsluvefur um allt sem tengist vefjagigt og mikilvægt að bæði vefjagigtarsjúklingar og aðstandendur viti af þessari vönduðu síðu.
Ég sjálf er með vefjagigt og get sagt það án þess að hika að þessi síða hefur hjálpað mér og mínum.
Núna í dag eftir mikla keyrslu er ég að eiga vefjagigtarþreytudag og fyrir ykkur sem ekki vitið hvernig það er þá er það engin venjuleg þreyta.
Eftirfarandi fræðslugrein er fengin af síðunni og nafn höfundar kemur fram neðst.
Þreyta
Þreyta er ástand sem allir þekkja og er eðlileg viðbrögð líkamans við álagi og skertri hvíld. Þegar þreytan hverfur ekki þrátt fyrir góðan nætursvefn, hvíld og slökun þá verður hún smám saman að sjúklegu ástandi, nefnt síþreyta. Allt að 85% vefjagigtar- sjúklinga eru haldnir sjúklegri þreytu af líkamlegum og/eða andlegum toga (21).
Helstu einkenni síþreytu eru:
• Að vakna þreyttur og óendurnærður
• Að hafa litla sem enga orku yfir daginn
• Að verða yfirkominn af þreytu eftir álag og geta ekki hvílt þreytuna úr sér
• Að verða yfirþyrmandi þreyttur allt í einu
• Að vera illa upplagður og hafa minnkaðan áhuga á að taka þátt er einnig ein afleiðing síþreytu
Síþreyta er breytileg milli einstaklinga og í sumum tilfellum er hún svo mikil að hún rænir fólk allri orku til daglegra athafna. Sá hópur fólks er ekki fær um að vinna úti, stunda félagslíf, íþróttir o.s.frv. og getur orðið mjög félagslega einangraður. Flestir vefjagigtar- sjúklingar eru þó haldnir mildari einkennum þreytu og geta lært að lifa lífinu með tilliti til þeirrar orku sem þeir hafa.
Orsakir síþreytu geta verið margar og þær algengustu eru eftirfarandi:
• Svefntruflanir
• Langvinnir verkir
• Þunglyndi, kvíði
• Streita
• Lélegt líkamsástand
• Minnkuð starfsemi í skjaldkirtli
• Ýmsir langvinnir sjúkdómar s.s. astmi, ofnæmi, liðagigt
• Blóðleysi, járnskortur
• Alkóhólismi, lyfja- og eiturlyfjafíkn
Höfundur greinar: Sigrún Baldursdóttir
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!