Allt sem þú þarft að vita um Kóróna veirur (corona)

Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum m.a. fuglum og spendýrum. Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs og öndunarfærasýkinga hjá mönnum en þegar ný afbrigði berast úr dýrum í menn er þekkt að kórónaveirusýkingar geta verið alvarlegar. Engin sérstök meðferð er til við kórónaveirusýkingum og ekki er til bóluefni gegn þessari veiki. Til að forðast smit vegna kórónuveiru, svipað og inflúensu, er mikilvægt að beita almennu hreinlæti, s.s. handþvotti og/eða handsprittun og forðast náið samneyti við einstaklinga með almenn kvefeinkenni. Í lok desember 2019 kom upp áður óþekkt afbrigði af kórónaveirunni í Wuhan borg í Kína sem olli alvarlegum lungnasýkingum. Veiran er kölluð 2019-nCoV eða í almennu tali Wuhan-veiran. Talið er að veiran sé upprunin í dýrum og hafi nú hæfileika til að sýkja menn. Getgátur eru um að smitin megi rekja til leðurblaka sem seldar voru á matarmarkaði í Wuhan borg. Veiran getur smitast manna á milli, óljóst er hversu smitandi hún er, en allt bendir til að náin samskipti þurfi til.. Smitleiðin er fyrst og fremst snerti- og dropasmit. Veiran hefur nú þegar verið greind hjá þúsundum einstaklinga og tala látinna fer vaxandi. Látnir einstaklingar hafa hingað til allir verið með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.

Einkenni

Einkenni Kórónaveiru sýkinga geta verið svipuð inflúensu í upphafi sjúkdóms. Kórónaveiran getur snögglega valdið sýkingu í neðri loftvegum með lungnabólgu sem getur gert öndun erfiða, en leiðir sjaldnar til einkenna frá efri öndunarfærum eins og hálssærindum og kvefi. Einkenni kórónaveirunnar koma fram 2 vikum frá smiti. Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega og lýsa sér með hita, hósta, hálssærindum, höfuðverk, vöðvaverkjum og almennri vanlíðan.

Árlega inflúensan veturinn 2019-2020 hefur farið hægt af stað Þar sem þessir tveir faraldrar virðast ætla að ganga samtímis á norðurhveli jarðar kann það að valda vandamálum við greiningu sjúkdómanna. Þeir sem fái þessi einkenni eru hvattir til þess að halda sig heima og minnt er á að til eru öflug lyf gegn inflúensu (Tamiflu® hylki og Relenza® innúðaðalyf) sem geta dregið úr einkennum og flýtt bata ef þau eru tekin innan tveggja sólarhringa frá upphafi einkenna. Þessi lyf eru lyfseðilskyld

Aðstæður á Íslandi

Smithætta Wuhan veirunnar hérlendis er hverfandi sem stendur. En talið er víst að hún muni berast til Íslands. Ef þú hefur verið á ferðalagi undanfarnar 2 vikur á svæðum þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp eða á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, er þér bent á að hafa samband við svl@landlaeknir.is til að fá nánari leiðbeiningar um smitgát og eftirlit. Fólk sem er bæði með einkenni kvefs, hita eða inflúensu og hefur tengsl við Kína eða hefur ferðast þangað síðustu tvær vikurnar ætti að hafa samband í símanúmerið 1700 og fá þar nánari upplýsingar eða leita á næstu heilsugæslu. Ráðlegt er að láta viðkomandi heilsugæslu vita af komu sinni áður en mætt er á staðinn til að hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir. Ef fólk þarf að leita á bráðamóttöku vegna alvarlegri einkenna, þá er mikilvægt að hringja áður á deildina (543 1100) til að láta vita af sér og fá nákvæmar leiðbeiningar áður en komið er þangað.

Ekki er mælt með að gera rannsóknir til að leita að kórónaveiru hjá einkennalausum þar sem veiran finnst ekki í öndunarfærasýnum fyrr en einkenni eru komin fram og því ekki hægt að treysta neikvæðri niðurstöðu hjá einkennalausum

Sóttvarnalæknir hvetur einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína þar sem sýkingar af völdum 2019-nCoV hafa verið staðfestar að:

  • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni.
  • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
  • Nota klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
  • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.

Reglulega eru uppfærðar upplýsingar um Kórónaveiruna á vef Landlæknis landlaeknir.is og facebook síðu Landspítalans

Höfundur greinar

Greinin er af Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

SHARE