Kæru lesendur, loksins kemur þessi pistill sem ég ætlaði að hafa kláran miklu fyrr, en lífið þurfti aðeins að setja strik í reikninginn.
Ég fór til Jelenia góra í Póllandi í magaermiaðgerð á vegum hei.is. Ég ákvað að skrifa um ferlið af því svo margir voru forvitnir um það í kringum mig og var með instagram hun.is og Snapchat.
Magaermiaðgerð virkar þannig að þá er um 80% af maganum fjarlægður:
Hér kemur ferðasagan og staðan í dag.
Ferðalagið og aðgerð:
Auðvitað byrjaði ferðalagið á 4 tíma seinkun vegna rauðrar viðvörunar á Íslandinu, þannig að allt ferlið fann fyrir seinkuninni.
Við áttum gott flug út og á flugvellinum beið mín og fylgdarmeyja minna bíll frá KCM Clinic og bílstjóri. Keyrt var beint á „kliníkina“ og þangað komið kl 6 um morgun. Ég náði augnabliks „kríu“ áður en fullstappaður dagur af rannsóknum og læknaviðtölum hófst.
Fyrst var það blóðprufa þar sem allt mögulegt var athugað, svo magaspeglun með stuttri svæfingu, ég var sko til í það orðin græn af þreytu. Ég fór í hjartalínurit, hjartaómun, þolpróf og ábyggilega meira sem ég man ekki akkúrat núna. Auk þess ræddi ég við lækna um aðgerðina, svæfinguna og heilsufarsástand mitt og fékk að lokum grænt ljós.
Að rannsóknum loknum fékk ég kærkomna pásu og hvíldi mig með því að liggja á minni einkastofu og glápa á Netflix með öðru auganu og sofa með hinu.
Seinnipartinn var svo komið að þessu LOKSINS og ég algerlega til í að klára þessa aðgerð.
Mér var fylgt upp á skurðstofu og þar var vel tekið á móti mér af glaðværu starfsfólki og svo er bara sofið.
Að aðgerð lokinni vakna ég inni á vöknun og er svo fylgt niður í mína einkastofu. Ég er svo lánsöm að ég vakna vel eftir svæfingu, var vel verkjastillt og leið bara ágætlega.
Eftir aðgerð:
Ég var upplýst um það að ég yrði að vera dugleg að fara á fætur og labba eftir aðgerðina. Lofti er blásið inn í mann í aðgerðinni og það hjálpar loftinu út að labba, en verkjalyfin slá alls ekki á vindverki.
Ég dreif mig á lappir og gekk gangana fram og tilbaka og já, mjög kvenlegt, rak við eins og herforingi. Að vísu tók viðreksturinn smá stund að koma, en vá hvað það var mikill léttir. Svo fann ég að gangarnir voru ekki nóg og tók stigana. Ójá dásamlegt, stigarnir settu allt í gang og „númer 2“ kom líka. Þetta skiptir nefnilega höfuðmáli að ná að losa vind og get farið á klósettið. Mitt ráð til ykkar sem eruð að íhuga þetta, er GANGA OG GANGA OG PRUMPA OG PRUMPA OG NJÓTA NR 2.
Fyrst eftir aðgerð prófaði ég að drekka vatn enda maginn orðin algert krútt og nýheftaður saman, svo bættist við jógurt. Fann aldrei fyrir svengd og var alveg pökkuð fyrst af tveimur teskeiðum af hreinni jógurt. Loks átti ég að drekka próteindrykk, en það var gerð krafa frá degi 2 að drekka 1 og hálfan lítra af vatni, það var áskorun sem mér tókst næstum að klára.
Á þriðja degi var ég útskrifuð yfir á hótel, en mætti í umbúðaskipti og eftirlit alla daga þar til ég fór heim. Fyrir útskrift var búið að athuga hvort maginn væri ekki alveg lekalaus og skoða hjarta og allt aftur. Sjúkraþjálfari kenndi manni æfingar til að gera heima og svo var ég með símanúmer hjá tenglið allan sólahringinn ef eitthvað var að.
Ég tók mér fyrsta daginn í hvíld enda orðin 51 árs og nýkomin úr aðgerð. Ég hvíldi mig og hamaðist við að drekka nægilegt vatn og innbyrða prótein. Maður drekkur ekkert vatn eins og maður var vanur ó nei! pínulitla sopa og stoppa á milli svo allt tekur tíma.
Á degi 4 fór ég í umbúðaskipti og svo auðvitað beint í verslunarmiðstöðina. Ég hafði nú ekki mikið úthald þar og var ósköp fegin að komast á hótelið og slaka á (gamlan í ferðinni).
Á degi 5 fór ég í umbúðaskipti og skoðun og þann dag kom elsta og besta vinkona mín yfir til Jelena Góra, frá Tékklandi þar sem hún var í skíðaferð. Frábær dagur með henni og verslunarmiðstöðin var tekin aftur og mikið spjallað og gaman.
Á degi 6 fór ég í umbúðaskipti og skoðun enn og aftur, auk þess sem ég fékk ýmsar nánari leiðbeiningar. Svo fór ég upp á hótel í dekur, hand- og fótsnyrtingu og bara leti.
Á degi 7 fór ég í umbúðaskipti og lokaskoðun. Fékk þessa líka klikkað sexý sokka, sem eru til að fljúga í svo maður eigi síður á hættu að fá blóðtappa þrátt fyrir blóðþynningarsprautu daglega. Okkur var svo skutlað upp á flugvöll og flogið heim á réttum tíma.
Heimkoman:
Það var gott að koma heim hitta karlinn minn, krakkana og kettina en það sem ég var mest spennt fyrir var að hitta vigtina! Ég var 107 kg þegar ég byrjaði á undirbúningsfæði 2 vikum fyrir aðgerðardag og við heimkomu viku eftir aðgerð sýndi viktin 99 kg! Það var dásamleg tilfinning að fara undir 3 stafa tölu. Nú eru 18 dagar frá aðgerð og mér líður ágætlega, hef aðeins verið aum og þreytt sem er eðlilegt. Ég fór í sneiðmynd hérna heima og maginn er lítill og sætur og algerlega án leka.
Ég hef tekið því rólega og sinnt mér líkamlega og andlega og get, í dag, borðað heilt egg og verð pakksödd. Ég er dugleg í vatninu og komin í 96 kíló!
Þetta hefur verið ferðalag sem tekur á bæði andlega og líkamlega en hver dagur er betri en sá fyrri og ég finn strax hvað það munar um þessi 11 kg. Ég mun leyfa ykkur að fylgjast áfram með ferlinu og birta fyrir og eftir myndir.
Svo upp á enskuna „Stay tuned“, fylgist með!
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!