Grænmeti í grænu karrímauki og kókossósu

Þessi uppskrift kemur frá CafeSigrún. Einföld og holl!

Fyrir 2-3

  • 1 sæt kartafla, afhýdd og söxuð frekar gróft
  • 1 laukur, saxaður frekar smátt
  • 2-5 msk grænt, thailenskt karrímauk (magn fer eftir styrkleika mauksins sem og smekk ykkar)
  • 1 tsk kókosolía
  • Hálf rauð paprika, sneidd í grófa strimla
  • 4 portabella sveppir, saxaðir frekar gróft
  • 6 þurrkuð kaffir lime blöð (má sleppa)
  • 250 ml vatn
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 400 ml kókosmjólk
  • 2 tsk agavesíróp
  • 2 msk límónusafi
  • Rifinn börkur af einni límónu

Aðferð

  1. Afhýðið laukinn og saxið frekar smátt.
  2. Skrælið sætu kartöfluna og saxið frekar gróft.
  3. Hitið kókosolíuna í stórum potti.
  4. Bætið lauknum út í pottinn ásamt karrímaukinu. Byrjið á 2 msk því karrímauk getur verið afar, afar sterkt.
  5. Bætið vatninu og grænmetisteningnum út í.
  6. Saxið sveppina frekar gróft.
  7. Skerið paprikuna í helming, fræhreinsið og saxið í grófa strimla.
  8. Bætið sveppunum og paprikunni við og sjóðið í 5 mínútur eða þangað til grænmetið fer að linast.
  9. Hrærið vel í þessu til að grænmetisteningurinn leysist upp.
  10. Hellið kókosmjólkinni út í og lækkið hitann. Látið malla í 5 mínútur.
  11. Bætið lime blöðunum út í ásamt sætu kartöflunni, látið malla í 10 mínútur eða þangað til kartöflubitarnir eru orðnir mjúkir.
  12. Rífið límónubörkinn fínt.
  13. Bætið agavesírópinu, límónusafanum og berkinum út í súpuna.
  14. Smakkið til með meira karrímauki.
  15. Hitið vel og berið fram.
  16. Berið fram með hýðishrísgrjónum eða byggi.

Gott að hafa í huga

  • Einnig er gott að sjóða t.d. hrísgrjóna- eða sobanúðlur (úr bókhveiti) og setja út í. Setjið þær þá út í allra síðast, rétt áður en maturinn er borinn fram.
  • Í staðinn fyrir portabello sveppi má nota aðra stóra sveppi.
  • Í staðinn fyrir sveppi má nota eggaldin (enska: eggplant/aubergine).
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.

Birt með góðfúslegu leyfi Café Sigrún.

SHARE