Nutellasnúðar

Þessi æðislega uppskrift er frá Eldhússystrum og er með þeim bestu. Það er alveg þess virði að skella í eina svona uppskrift.

Snúðar


150 gr kalt smjör
6 dl mjólk
2 egg
75 gr ferskt ger (7,5 tsk eða 22,5 gr þurrger)
2 dl sykur
1/2 tsk salt
1 tsk kardimommukrydd
1 kg hveiti

Fylling
1 – 2 dl af nutella og jafn mikið af smjöri, hrært saman – magnið er samt að sjálfsögðu smekksatriði 🙂

Öllum þurrefnum blandað saman. Smjörið mulið saman við. Eggin slegin í sundur og blandað saman við mjólkina. Gerið leyst upp í eggjamjólkublöndunni (eða þurrgerið ef því er að skipta, það mætti líka setja þurrgerið beint út í hveitiblönduna og blanda ásamt hinum þurrefnunum) og henni svo hrært saman við þurrefnin. Hnoðað vel (í höndum eða í hrærivél). Látið lyfta sér í ca. klst. Deiginu er svo skipt í þrjá jafnstóra hluta.

Sjá leiðbeiningar að neðan varðandi hvernig snúðarnir eru gerðir:

Flatt út í ferhyrning (ef þið notið heila uppskrift, skiptið þá í u.þ.b. fernt), nutellasmjörinu smurt á, deigið lagt saman og skornar út ræmur. Hverri ræmu snúið upp og sett saman í hring.  Snúðarnir penslaðir með eggi. Bakað við 180 gráður, þar til snúðarnir eru gullinbrúnir.

Passið ykkur á að fletja deigið ekki of þunnt út, og hafa ræmurnar ekki of mjóar!

Fletjið deigið út í ferhyrninginn (ekki of þunnt!) og smyrjið nuttellasmjörinu á það.
Brjótið saman deigið (eða leggið það saman).
Skerið deigið í sæmilega breiðar ræmur (ekki of mjóar, þá er erfitt að snúa upp á finnst mér)
Snúið upp á hverja ræmu fyrir sig.

Búið til hring úr hverri uppásnúinni ræmu, stingið svo endanum á ræmunni í miðjuna á hringnum.


Endilega smellið einu like-i á Eldhússystur á Facebook.

SHARE