ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is
Hvers vegna höldum við framhjá persónunni sem elskar okkur og treystir?? Hvers vegna erum við að taka áhættuna á að traðka og mylja allt það fallega sem ástvinur okkar býður okkur upp á í þessu stutta lífi??
Þessi ófyrirleitni gjörningur hefur fylgt mannkyninu frá örófum alda og inn í þá tíma sem við búum við dags daglega. Karlmenn gera þetta jafnt sem konur, en í þessu tiltekna máli er það ég, karlmaður sem á í hlut. Núna er vika síðan að mitt ógeðslega athæfi komst upp, ég hef sjaldan eða aldrei upplifað eins miklar tilfinningasveiflur sem og skömm í minn eigin garð. Ég mun heldur ALDREI reyna að afsaka það sem ég gerði á nokkurn hátt, ég ætla að axla ábyrgð á því sem ég gerði – Taka afleiðingunum í nánustu framtíð, sama hverjar þær kunna að vera. Ég þykist þó vita að þær verði mér ekki í hag, þó svo að hjarta mitt vilji annað tækifæri til að sýna úr hverju ég er gerður.
Afleiðingarnar eru þegar byrjaðar – Ég er að upplifa það sem ég nefndi að ofan, það er tómleiki í blæðandi hjartanu og sálin stendur fyrir utan mig, að mér finnst – ég á ekkert eftir.
Ég sit hérna heima og horfi út um gluggann, umferðin gengur sinn vanagang á Reykjanesbrautinni þrátt fyrir Almannavarnarástandið í landinu. Sólin er á lofti en ský dregur reglulega fyrir hana með léttum skúraleiðingum, rétt eins og sálin mín upplifir. Já, ég fer að gráta (og þið sem hélduð að við karlmennirnir hefðum ekki með tilfinningar).
Hvers vegna heldur fólk framhjá maka sínum? – Það eru til ótal getgátur um þetta atferli mannsins (Homo Sapiens) og eflaust margar vísindalegar útskýringar, mér hefur alltént sýnst það í öllum konublöðunum á Læknastofunum.
Í mínu tilfelli er það líklega allt þetta hormónaflæði ásamt því að þurfa að fá einhverja viðurkenningu fyrir því sem þú heldur að þú sért, en ert alls ekki.
Sjá einnig: 9 merki um að hann sé ekki sá eini rétti
Ekki misskilja mig samt, okkar ástarsamband gaf meira en nóg af sér og var dásamlegt í alla staði. Við deildum mörgum sameiginlegum áhugamálum, vissum allt um hvort annað, rifumst aldrei, en vorum stundum sammála um að vera ósammála, rétt eins og gengur og gerist.
Okkar tímabil hófst í sumarbyrjun 2019 og get ég fullyrt að þetta er besta samband sem ég hef upplifað, því að á stuttum tíma tókst okkur saman að búa til óhemju mikið af yndislegum minningum, bæði á landi og í lofti. Mikið svakalega var ég stoltur af því að ganga með hana við hliðina á mér, þvílík kona.
En þessar minningar eru einmitt ljósið í myrkrinu sem að hringsnýr mér núna. Við lentum á smá blindskeri rétt eftir hátíðarnar, það var okkar fyrsta strand. Það hlaut að koma að því, annað væri óeðlilegt. Þetta strand var mér að mestu um að kenna, tek ég ábyrgðina á því sömuleiðis. Þarna upplifði ég einhverskonar höfnun og ræddum við það síðar. Því næst settum okkur aftur í fyrri spor að reyna að byggja upp það sem við áttum fyrir.
Líklega hefur eitthvað óöryggi og vanmáttarkennd eftir gríðarlegt andlegt álag innra með mér, hrundið af stað þessu ógeðslega ferli sem fór í gang seinna meir. Samt átti ég að vita að þessi tilfinning átti sér ekki við rök að styðjast, við tjáðum hvort öðru ást okkar á oft hverjum degi. Það sem meira var, ég vissi innst inni að þetta var ekki tilbúningur að hennar hálfu né hjá mér.
Ágæta fólk af öllum kynjum takið nú eftir og gleymið því aldrei.
Framhjáhald er EKKI ÞESS VIRÐI. Hvorki að hugsa það, skrifa það í gegnum spjallglugga við aðra persónu, hvað þá að fara alla leið – Ég gerðist sekur um allt þetta þegar að ég átti að vita betur, ég átti að vita að ég gat gert allt þetta með minni konu. Ég átti líka að vita manna best að við gátum talað saman um allt eins og svo oft áður.
Sjá einnig: Ég óttast um líf eiginmanns míns – Ekki rjúfa sóttkví
Eitt er víst, ég mun aldrei aftur gera hluti sem þessa, missir minn í dag er meiri en öll auðæfi heimsins í aurum talið. Þetta er yndislegasta kona sem fyrir finnst á jörðinni í mínum huga, og ég tilbið jörðina sem hún gengur á. Auk þess er heldur ekki tilbúinn að upplifa allar þessar kvalir aftur, en ég tel þó mínar vera afskaplega litlar í samanburði við þær sem hún er að upplifa, nema að hún er að upplifa trúnaðarbrot og svik.
Að eiga í alvöru ástarsambandi eins og ég var að upplifa er töfrum líkast, það er bara þannig. Að fá að deila herbergi og rúmi með konu eins og henni voru mín helstu og mestu forréttindi lífs míns. Að fá að vakna með henni var engu lagi líkt, maður fann hver tilgangurinn í lífinu var – Það var að horfa í augun á henni og átta sig á að það var kominn nýr dagur, ný ævintýri að hefjast.
Þegar að ég hugsa tilbaka eftir að hafa verið í sjálfsskoðun síðustu daga, verður ekki annað sagt en að framhjáhald er viðbjóðslega yfirborðslegt. Hvað var maður að hugsa – Afhverju í ósköpunum var ég að sækjast í þetta ?? Það er og verður ALDREI hægt að líkja þessum tveimur hlutum saman þ.e. að vera með þeim sem að maður elskar, upplifa allar þá nánd og hlýju sem sambandið hefur upp á að bjóða og hinsvegar tilgangslaust skrölt með aðila sem þú ert ekki tengdur tilfinningaböndum á nokkurn hátt.
Kærastan mín var meira en tilbúin að vaða eld og brennistein fyrir mig og mitt. Það er líka gagnkvæmt og mun alltaf verða frá minni hlið séð.
Ágæti lesandi, ef þú ert komin(n) hingað og lesið allt samviskulega hér að ofan, þá vil ég þakka þér fyrir að hafa gefið þér tíma í það. Ég grátbið þig um að fara ekki út af sporinu og þessa leið líkt og ég asnaðist til að gera – Makinn er besta baklandið sem þú átt !!!
Þetta er ekki þess virði – Aldrei. Sársaukinn sem þú kemur til með að leggja á ykkur bæði er meiri en nokkur orð fá lýst. Ofan á það er Ísland lítið land og allir tengjast á einhvern hátt.
Þú ert heldur ekki bara að særa makann þinn, þú ert að særa allt fólkið í kringum ykkur tvö, fjölskylduna, vini og ættingja, stóra sem smáa.
Elsku hjartans þú, ef að hjörtu okkar mætast aftur á miðjum krossgötum, langar mig að gefa þér mitt skilyrðislaust. Ég yrði heppnasti maður í veröldinni ef það gerist. Viltu lofa mér að vera þinn klettur og þitt sverð í blíðu og stríðu og lofa mér að bera þig á bakinu þegar hallar undan hjá þér, rétta þér hjálparhendi þegar að þú hrasar, svo að ég geti hjálpað þér aftur á fætur og haldið áfram út veginn ??
Ég gerði stærstu og verstu mistök lífs míns á síðustu misserum, ég bið þig afsökunar aftur og aftur. Þetta hefur markað mig djúpt á allann hátt frá toppi til táar og ef ég þekki mig rétt, þá hef ég virkilega lært mína lexíu. Þú kvaðst ekki trúa einu né neinu sem ég kæmi til með að segja í framtíðinni þar sem að þú treystir mér ekki, samt sem áður ætla ég að segja það.
Elsku hjartans BRG, ég elska þig svo ótrúlega heitt og mun ætíð gera. Mig langar að geta sagt það aftur og aftur við þig alla daga, augliti til auglitis fram til míns dauðadags.
Þinn einlægur.
Veðurlúðinn.