Á heimasíðu allskonar.is má finna gott safn af girnilegum uppskriftum eins og þessari:
Svínaskankinn er ódýrt hráefni en ákaflega gott kjöt sem auðvelt er að elda. Þú getur reiknað með 1 skanka fyrir ca 3 manneskjur, 2 eru feykinóg fyrir 4. Ef þú velur að elda 2 skanka þá ættir þú að koma þeim fyrir í sama ofnpotti og þarf því ekki að auka annað hráefni í uppskriftinni nema þú viljir tvöfalda það til að hafa meiri sósu.
- 1 svínaskanki (nýr eða reyktur)
- 3 msk ólífuolía
- 1 epli, skorið í báta
- 2 fennel, skorinn í sneiðar
- 7 hvítlauksrif, grófsöxuð
- 1 laukur, grófsneiddur
- 1/2 tsk salt
- 2 dósir tómatar, hakkaðir
- 3 msk balsam edik
- 1/2 tsk chili eða chiliflögur
- 2 dl vatn
- ferks steinselja, söxuð
Undirbúningur: 10 mínútur
Steikingartími: 1 1/2 – 2 klst
Hitaðu ofninn í 180°C.
Skerðu í skinnið á skankanum á ská, fram og til baka, nægilega djúpt til að skera í gegnum skinnið sjálft og ofan í fituna.
Settu olíu í pönnu á háan hita og steiktu skankann í 1-2 mínútur á hvorri hlið. Settu skankann í eldfast mót eða ofnpott. Skerðu eplið í bita og raðaðu í kringum svínið, reyndu að raða því þannig að það liggi þétt upp við kjötið.
Lækkaðu hitann undir pönnunni og bættu örlitlu af olíu við, steiktu hvítlauk, fennel og lauk með smá salti þar til hvítlaukurinn byrjar að brúnast örlítið. Helltu tómötunum út í, balsamedikinu, chiliflögunum og vatninu og hrærðu varlega saman.
Helltu yfir svínakjötið og eplin í mótinu. Það er líka gott að setja 1 dl af rauð- eða hvítvíni út í sósuna.
Lokaðu mótinu/ofnpottinum , annaðhvort með loki eða álpappírshatti.
Steiktu í ofninum í 1 1/2 klst -2 klst, og snúðu kjötinu á 30 mínútna fresti. Þegar kjötið er tilbúið þá dettur það af beinunum.
Stráðu steinselju yfir og berðu fram með smásneiddum kartöflum og fersku salati.
Endilega smellið like-i á Facebook síðu Allskonar.