Susan Spencer-Wendel á aðeins nokkrar vikur ólifaðar. Susan skrifaði ævisögu sína á Iphone-inn sinn en til þess gat hún einungis notað hægri þumalinn þar sem hinir fingur hennar eru lamaðir. Það tók hana 3 mánuði að skrifa bókina, sem heitir “Until i say goodbye”. Árið 2011 greindist Susan með hrörnunarsjúkdóm sem gerir það að verkum að taugarnar í heilanum sem stjórna m.a. hreyfingum hætta að virka og á endanum deyrð þú. Þegar Susan greindist fékk hún þær fréttir að hún ætti aðeins nokkur ár eftir ólifuð.
Þegar hún greindist ákvað hún að fara að lifa lífinu og gera allt sem hún átti ógert. Hún fór til Kaliforníu þar sem hún fann blóðmóður sína, hún fór til New York með 15 ára dóttur sinni þar sem hún fékk að sjá dóttur sína máta brúðarkjóla. Dóttir hennar er augljóslega ekki að fara að gifta sig strax en Susan vissi að hún myndi missa af þeim degi svo að hún ákvað að þær fengju að upplifa þessa stund saman, nokkrum árum fyrr. Hún fór til Karabíska hafsins og til Yukon með bestu vinkonu sinni í þeim tilgangi að reyna að sjá norðurljós.
Susan hefur gefið út bókina sína og segir að hún sé um það að fólk eigi að lifa lífinu, hlæja, gráta, faðma börnin sín eins oft og það getur, eyða tíma með vinum sínum og kunna að meta það hversu yndislegt það er að vera lifandi.
Í dag á Susan aðeins nokkrar vikur ólifaðar og er orðin svo slæm af sjúkdómi sínum að hún getur ekki talað. Það er hægt að læra margt af Susan og svona fólk kennir okkur að kunna að meta það sem við höfum, núna.