Glútenið og skjaldkirtillinn

Fyrir nokkrum árum (um það bil 5-6 árum) var ég greind með vanvirkan skjaldkirtil. Ég veit ekki hvenær þetta hefur byrjað en ég get ímyndað mér að það hafi verið upp úr kynþroskaaldrinum. Einkennin voru til að mynda þróttleysi og gífurleg þreyta sérstaklega eftir hádegi í mínu tilfelli. Ég gat verið í góðum gír en svo var bara eins og ég væri „tekin úr sambandi“. Ég var með þurrt hár og þurrar og brothættar neglur. Verkir í vöðvum og liðum og mér var alltaf kalt, höfuðverkir voru mjög tíðir og óreglulegar blæðingar, meltingarvandamál og hormónasveiflur. Mörg þessara einkenna var hægt að tengja við eitthvað annað og ég var talin þunglynd, kannski með vefjagigt og fleira.

Svo var ég svo heppin að fá í hendur pistil frá ungri konu, sem hafði leitað ráða við sínum veikindum lengi. Ég birti pistilinn og auðvitað las hann nokkrum sinnum yfir og var svo mikið að tengja við hana að það hálfa væri nóg.

Ég fór því á stúfana til að sjá hvað ég gæti gert og það eina sem var í boði fyrir mig var að byrja á að fara til heimilislæknis. Ég pantaði tíma og læknirinn ræddi við mig og boðaði mig í blóðprufu. Í stuttu máli var þetta þannig að ég kom, næstu mánuði í fjölmargar blóðprufur og læknirinn sagði alltaf hikandi: „já þetta er eitthvað skrýtið og virðist vera alveg á mörkum þess eðlilega. Komdu aftur eftir 3 vikur/mánuð/6 vikur.“ Það var ekki mikið að gerast og ég fann að ég var ekki mikið að nenna þessu til lengdar. Í næsta tíma hjá lækninum, bað ég hana að prenta út fyrir mig niðurstöður allra blóðprufanna sem ég hafði farið í vegna skjaldkirtilsins. Hún lét það loks eftir mér og ég fór með gögnin mín.

Sjá einnig: EKKI borða þetta ef þú ert með vanvirkan skjaldkirtil

Þá hófst enn ein vegferðin, en það var að reyna að komast til sérfræðings. Ég var með tilvísun og byrjaði að hringja. Ég hringdi út um allt og það var ekki nokkur leið fyrir mig að fá tíma hjá nokkrum innkirtlasérfræðingi á næstu misserum. Enginn tók nýja sjúklinga og mér var tjáð að það væru mjög litlar líkur á að komast að á næstunni. Það væru svo fáir í þessari grein á Íslandi. Það er ljótt að segja það, en ég held þetta sé allt of algengt, en ég komst að því að ég þekkti stelpu, sem þekkti stelpu sem gat hjálpað mér að komast að hjá lækni. Það tók tíma en ég komst loksins að, með örlítið slæmri samvisku af því ég þurfti að nota kunningskap til þess. Auðvitað á kerfið okkar að vera aðgengilegra en þetta og annað hvort eru lausir tímar eða ekki. Ekki bara fyrir þá sem þekkja þennan eða hinn.

Ég mætti til læknisins, rúmu ári eftir að þetta ferli mitt hófst. Um leið og ég sest hjá honum, horfir hann á mig og segir: „Þú þarft að fara á lyf“. Hann horfði á hálsinn á mér og ég var ekki alveg að skilja hvernig hann gat vitað þetta því ég var enn með skjölin mín í höndunum. Hann sagðist sjá það á skjaldkirtlinum en tók við blöðunum og skoðaði þau. Hann var algjörlega frábær læknir og lét mér líða vel. Mér leið ekki lengur eins og móðursjúkri „kellingu“ sem væri að „reyna að láta greina sig með eitthvað“. Hann útskýrði eitt og annað fyrir mér og sagði að ég þyrfti áreiðanlega að vera á lyfjum það sem eftir væri vegna þessa. Mér fannst það ekki spennandi en ef þau myndu auka lífsgæði mín var ég alveg til.

Ég byrjaði á lyfjum og kom svo einu sinni í blóðprufu til hans aftur og þá þurfti aðeins að auka við lyfin. Ég fann mjög fljótt mikla breytingu á mér. Það var eins og ég væri að lifna við og orkan mín var miklu jafnari en hún hafði verið áður. Ég fór reglulega í blóðprufu hjá heimilislækni og í nánast hvert skipti þurfti að bæta við lyfjum hjá mér, semsagt auka skammtinn. Þannig hefur það verið frá því ég hóf að taka þau.

Sjá einnig: Vanvirkur skjaldkirtill vegna sjálfsofnæmis?

Það sem gerist svo er að ég fór í jógakennaranám, árið 2019 og hófst námið á því að við fórum í viku út í sveit, þar sem við lærðum, stunduðum jóga og borðuðum hreina fæðu. Engan sykur, ekkert hveiti og bara hollan og hreinan mat. Eftir þessa viku fannst mér ég hrein og það tók tíma að fara að borða venjulegan mat aftur. Ég fann það þó að þegar ég borðaði hveiti og allt með glúteni að mér varð mjög illt í maganum. Maginn á mér var þaninn og mér leið bara virkilega illa. Svo ég ákvað að hætta að borða glúten. Það var hægara sagt en gert get ég sagt ykkur, en varð auðveldara með hverjum deginum. Það er nefnilega ekkert stórkostlegt úrval af glútenlausum vörum á Íslandi svo maður þarf að grúska og skoða til að finna bestu vörurnar.

Ég ákvað að taka þetta alvarlega því eitt af því sem er mælt með að maður borði sem minnst þegar maður er með vanvirkan skjaldkirtil er glúten. Þegar ég fór að skoða allt sem ég borðaði með þessu sjónarhorni sá ég, að ég var að borða mjög mikið glúten alla daga. Úff! Þetta var verðugt verkefni.

Í tæpt ár hef ég nú verið á glútenlausu/glútenlitlu mataræði. Ég forðast brauð alveg, nema glutenlaust brauð sem ég baka eða kaupi. Ég tók líka út unna kjötvöru og mikið reykt kjöt. Ég nota múslí sem er glútenlaust, baka glútenlausarkökur og nota bara glútenlaust pasta og lasagna. Ég finn það eftir því sem lengri tími líður, því auðveldara er þetta fyrir mig. Ég á alltaf til eitthvað til að redda mér og mæti með mitt hamborgarabrauð í grill hjá öðrum og svona. Sérþarfir alltaf hreint! En ég geri þetta af ástæðu.

Í þeim blóðprufum sem ég hef farið í, sem eru 3 eftir að ég byrjaði á þessu glútenlausa mataræði, hef ég alltaf fengið jákvæðar niðurstöður. Í fyrstu kom í ljós að ég væri í góðu jafnvægi og það þyrfti ekki að bæta við lyfjum. Í þeirri næstu kom það sama. Í þeirri þriðju kom í ljós að ég gæti lækkað skammtinn minn. JIBBÍ! Ég var svo ánægð með þetta. Ég geri mér engar vonir um að ég geti hætt að taka lyfin en á meðan ég er í góðu jafnvægi og ekki sífellt að hækka skammtinn það sem eftir er, veit ég að ég er að gera eitthvað rétt.

SHARE