Þessar eru svo girnilegar að ég er ekki frá því að ég hafi slefað smá þegar ég sá þær. Þessar fallegu kökur koma að sjálfsögðu frá Matarlyst.
Hráefni kaka
250 g hveiti
400 g sykur
125 g kakó
1½ tsk lyftiduft
1½ tsk matarsódi
1 tsk salt
2 egg
200 ml mjólk
110 ml olía t.d isio4
4 tsk vanilla extrakt eða vanilludropar
120 ml volgt vatn
120 ml kaffi
Aðferð
Hveiti, sykur, kakó, lyftiduft, matarsódi, og salt er sett í hrærivélaskálina blandið saman. Bætið út í eggjum, mjólk, olíu og vanillu hrærið saman í 1½mín. Bætið í lokin út í vatni og kaffi athugið að blandan verður þunn. Setjið í könnu og hellið í muffinsform (gott er að nota muffinsform úr járni setja pappaformin ofaní það veitir góðan stuðning og kökurnar verða fallegri, eða kaupa stinn form eins og eru hér á myndinni.) Uppskriftin er u.þ.b 16 til ca 22 kökur fer eftir stærð á formum.
Bakið við 180 gráður og blástur í u.þ.b 20-25 mín, fer eftir stærð gott er að stinga prjón ofaní eina eftir 20 mín, ef hann kemur þurr upp eru kökurnar klárar. Kælið kökurnar alveg áður kremið er sett á.
Frosting
200 g sykur
1 1/4 dl vatn
4 eggjahvítur
1 msk sýróp
2-4 tsk piparmynntudropar smakkið til.
Aðferð
Sykur og vatn er sett saman í pott, kveikið undir á meðalhita, sykurlögurinn er hitaður í 120° tekur ca 20-30 mín jafnvel lengur, þar til hann fer að þykkna. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Hellið sykurleginum í mjórri bunu út í hvíturnar þeytið á meðan, setjið svo strax sírópið og piparmynntudropa út í. Þeytið áfram um stund eða þar til kólnar það tekur smá tíma þið finnið það á hrærivélaskálinni, setjið strax á kökurnar ég notaði sprautupoka.
Súkkulaði bráð
200 g suðusúkkulaði brætt yfir vatnsbaði, kælið lítillega, dreipið yfir hverja köku með t.d teskeið.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.