Nýlegar rannsóknir á líkamsbyggingu fólks hafa sýnt að ekki er einungis hægt að horfa á líkamsþyngd fólks þegar meta á áhættu fyrir lífstílstengdum sjúkdómum heldur hefur líkamsbygging eða öllu heldur hvar fólk safnar á sig fitu meira um það að segja en áður var talið.
Fitusöfnun á kvið er hættulegri en fitusöfnun á öðrum stöðum líkamans þar sem gera má ráð fyrir að fólk með miðlæga fitusöfnun sé með mikla iðrafitu en það er fita sem leggst umhverfis líffærin í kviðarholinu. Fitusöfnun á öðrum stöðum líkamans s.s. á lærum og rassi er ekki talin eins hættuleg þar sem sú fita er yfirleitt staðbundin undir húð.
Óhófleg fitusöfnun á kvið eða svokölluð miðlæg offita eykur áhættuna á sykursýki 2, blóðfituröskunum, kransæðasjúkdómum, hjarta- og æðasjúkdómum, efnaskiptatruflunum, elliglöpum, háum blóðþrýstingi og sumum krabbameinum s.s. krabbameini í ristli eða endaþarmi, brjóstakrabbameini, blöðruhálskrabbameini og krabbameini í vélinda.
Sjá einnig: Upplitaðar nærbuxur okkar kvenna
Tvær aðferðir hafa verið notaðar til að meta áhættuna á efnaskiptavandamálum tengdum iðrafitu en annars vegar er það að mæla mittismál og hinsvegar að mæla hlutfall milli mittis og mjaðma. Viðmiðin safmkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun má sjá í þessari töflu:
Konur | Karlar | ||
Mittismál | > 80 cm | > 94 cm | Aukin áhætta |
Mittismál | > 88 cm | > 102 cm | Mikil aukin áhætta (miðlæg offita) |
Hlutfall mitts og mjaðma | ≥ 0,85 cm | ≥ 0,90 cm | Mikil aukin áhætta |
Mælingar á mittismáli gefa okkur því betri mynd af líkamsástandi einstaklings heldur en fituprósenta eða BMI. Sem dæmi getur einstaklingur mælst með miðlæga offitu án þess að mælast með offitu samkvæmt BMI eða fituprósentumælingu og sömuleiðis getur einstaklingur verið með of hátt BMI eða fituprósentu en mittismál mælst innan marka og þannig ekki endilega í aukinni áhættu fyrir efnaskiptasjúkdóma.
En við stjórnum því víst ekki hvar fitusöfnun á sér stað hjá hverjum og einum en þar spila erfðaþættir, aldur og kyn stórt hlutverk. Karlmenn eru líklegri en konur til að safna á sig kviðfitu og hlutfall kviðfitu eykst með hækkandi aldri.
Kviðfitan getur verið erfið að eiga við og engin ein leið sem virkar staðbundið á kviðfitu. Einstaklingar sem hafa tilhneygingu til að safna fitu á kvið verða því að vera sérstaklega meðvitaðir um heilsuna og mittismálið, stunda reglulega hreyfingu og passa upp á mataræðið.
Höfundur greinar
- Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Greinin birtist fyrst á Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.