Þessar bollur eru meiriháttar góðar og fljótlegar og koma frá Allskonar.is. Þú getur borið þær fram með brúnni sósu, rétt eins og kjötbollur, sett í pítubrauð eða sett út í pastasósu, eða með kaldri hvítlaukssósu og salati.
Uppskriftin er fyrir 20-25 bollur.
Linsubaunabollur
- 185gr grænar linsur
- 3 hvítlauksrif, marin
- 1 stór skallottulaukur, fínsaxaður
- 1 egg
- 30 gr brauðmylsna
- 50 gr heilhveiti
- 1 tsk salt
- nýmalaður svartur pipar
- 70 gr tómatpúrra (lítil dós)
- 2 tsk fennel fræ
- 1/4-1/2 tsk chiliflögur
- 1 tsk þurrkaðar kryddjurtir
Undirbúningur: 10 mínútur
Eldunartími: 35-40 mínútur
Hitaðu ofninn í 180°C.
Byrjaðu á að sjóða linsubaunirnar í saltvatni, ef ekki eru leiðbeiningar á pakkanum þá er ágætt að setja 2 hluta af vatni á móti 1 hluta af baunum. Sjóddu þær með lokið á pottinum í 10-12 mínútur, láttu renna af þeim í gegnum sigti og skolaðu með köldu vatni.
Á meðan linsurnar sjóða setur þú marin hvítlauksrif, saxaðan skallottulauk og egg í skál og hrærir vel saman.
Þegar linsurnar eru tilbúnar þá bætir þú þeim út í og svo öllum hinum innihaldsefnunum og hrærir vel. Það er ágætt að stappa vel meiri hlutann af blöndunni, þannig að þú hafir bæði stappaðar og heilar linsubaunir í bollunum.
Búðu til litlar bollur á stærð við valhnetur (tæplega matskeið) úr deiginu. Þú þarft að bleyta hendurnar vel til að deigið loði ekki við þig.
Leggðu bollurnar á bökunarpappír á bökunarplötu.
Bakaðu í heitum ofninum í 15-18 mínútur.
Geggjaðar bollur í pítuna, eða í staðinn fyrir kjötbollur; með sósu og grænmeti. Frábærar með kaldri hvítlaukssósu og salati.