Blóðþrýstingur er í raun þrýstingur í slagæðakerfi líkamans og er nauðsynlegur til að viðhalda blóðrás til líffæranna. Þegar blóðþrýstingur er mældur koma upp tvö tölugildi og er talað um að það séu efri og neðri mörk blóðþrýstings. Efri mörkin er þegar hjartað er að vinna og dælir blóði út í slagæðar líkamans, neðri mörkin er þegar hjartað er í hvíld.
Eðlilegur blóðþrýstingur miðast við að vera undir 135 í efri mörkum og undir 85 í neðri. Ef blóðþrýstingur fer yfir 140 í efri mörkum og yfir 90 í neðri er farið að tala um háan blóðþrýsting. Sjá töflu:
Blóðþrýstingur | Efri mörk | Neðri mörk |
Eðlilegur | Undir 134 | Undir 84 |
Jaðarþrýstingur | 135-139 | 85-89 |
Háþrýstingur | Yfir 140 | Yfir 90 |
Háþrýstingur
Háþrýstingur er algengt ástand sem oft er einkennalaus framan af. Með tímanum ef háþrýstingur er ekki meðhöndlaður getur það aukið líkur á hjartaáfalli, heilablóðfalli og nýrnasjúkdómum. Einstaklingar geta haft háþrýsting í mörg ár án þess að taka eftir því og ástandið getur orðið alvarlegt áður en það uppgötvast, vegna þess að þetta er svo oft einkennalaust.
Sjá einnig: 4 særandi hlutir sem foreldrar segja oft við börnin sín
Mikilvægt er að hafa samband við lækni fljótlega ef blóðþrýstingur mælist reglulega yfir 140/90. Ef blóðþrýstingur mælist í kringum 180/120 skal leita strax til læknis einnig ef blóðþrýstingur er í kringum 140/90 og einstaklingur finnur fyrir einhverjum af eftirfarandi einkennum: sjóntruflanir, mikill höfuðverkur, ógleði/uppköst, verkir í brjóstkassa, sljóleiki, erfiðleikar með tal, erfiðleikar með öndun, dökkt eða blóðugt þvag.
Einkenni
Eins og áður sagði þá er háþrýstingur í langflestum tilfellum einkennalaus en í sumum tilfellum fá einstaklingar einkenni. Þau eru:
Höfuðverkur
Sjóntruflanir
Mæði
Blóðnasir
Meðferð
Ef einstaklingur greinist með of háan blóðþrýsting mælir læknir oft með blóðþrýstingslækkandi lyfjum. Mikilvægt er þá að taka þau skv. leiðbeiningum. Einnig er gott að fylgjast með og mæla blóðþrýstinginn reglulega.
Það sem einstaklingar geta sjálfir gert til að hafa áhrif á blóðþrýstinginn er:
Hreyfa sig reglulega, í a.m.k. 30 mín á dag.
Passa uppá mataræði og minnka saltneyslu
Ef í yfirvigt reyna að létta sig
Minnka áfengisneyslu, ef hún er meiri en 2 glös á dag
Lágþrýstingur
Það mætti halda að lágþrýstingur væri af hinu góða miðað við lýsingarnar hér á undan en það er ekki raunin. Hjá sumum einstaklingum gerir þetta ekkert af sér, þeir sína engin einkenni og þetta háir þeim ekki neitt. Á meðan geta aðrir fengið svima, fundið fyrir máttleysi og þreytu. Í sumum tilfellum getur þetta líka verið mjög hættulegt og hjartað nær ekki að dæla blóði nógu vel út í líkamann vegna lágs þrýstings. Ástæða lágþrýstings getur verið allt frá þurrki í líkamanum og upp í lífshættulegt ástand.
Sjá einnig: Sambönd para og MS
Talað er um lágþrýsting ef efri mörkin fara undir 90 og neðri mörkin undir 60.
Einkenni
Svimi
Máttleysi
Þreyta
Sjóntruflanir
Einbeitingaskortur
Mikilvægt er að hafa strax samband við lækni ef: einstaklingur er óáttaður, húðin köld og þvöl, hraður grunnur andadráttur, veikur og hraður hjartsláttur. Þetta er vísbending um mjög alvarlegt ástand.
Ýmsar ástæður geta verið fyrir lágum blóðþrýsting t.d. meðganga, vítamínskortur, blóðleysi, alvarleg ofnæmisviðbrögð, ofþornun og hjartavandamál. Einnig geta ýmis lyf haft áhrif á blóðþrýstinginn. Mikilvægt er að finna orsök of lágs blóðþrýstings í samráði við lækni svo hægt sé að leiðrétta ástandið. Hafa þarf í huga líka að fyrir suma einstaklinga er eðlilegt að vera með lágan blóðþrýsting.
Hægt er að fylgjast með og mæla blóðþrýstinginn hjá sér heima við og fást mælar í mörgum búðum, m.a. raftækjabúðum og apótekum.
Höfundur greinar
- Særún Erla Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingurAllar færslur höfundar
Birtist fyrst á Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.