Hver er ég ef ég er ekki ég?

Ég get aldrei verið neitt annað en ég sjálf. En leyfi ég mér það? Eða þú? Leyfi ég mér að vera fullkomlega ófullkomin eins og einhver sagði svo vel. Ég get eytt mesta hluta ævinnar í það að hatast út í þá manneskju sem ég er, týnt mér í að gera allt sem ég get til að verða sú manneskja sem ég „ætti“ að vera, einhvernveginn öðruvísi, vitandi varla hver ég vil vera. Lifað lífi mínu í þóknun eða eftir hvað „lúkkar“ best út á við.

Sjá einnig: Fósturmissir var í raun þungunarrof

Það er hreint ótrúlegt hvað það eitt að taka ákvörðun um að vera fullkomlega maður sjálfur getur gert. Bara það að ákveða (því það er ákvörðun) að elska sjálfan sig fullkomlega í blíðu og stríðu, eins og við gerum í hjónabandi. Elska sig jafnt á góðu dögunum sem og þeim slæmu. Enda erum við oft mun ástríkari við aðra en okkur sjálf, manneskjuna sem við eigum í mestum samskiptum við.
Sjálf hef ég átt í sambandi við sjálfa mig á árum áður, sem einkenndist sannarlega ekki af ást, ég var ósátt við mig á alla kanta, hvort heldur sem það var líkamlega eða andlega. Líkamlega átti ég aldrei möguleika, ég hóf það stríð sem barn og gaf líkama mínum aldrei séns, hann fékk ekki vott af þeirri ást sem ég gat gefið öðrum.

Sjá einnig: „Ég og Demi ákváðum að setja börnin í fyrsta sæti“

Andlega dró ég mig niður fyrir minnsta feilspor, leyfði mér ekki að hlæja, ekki vera spennt eða ánægð. Í eðli mínu er ég „glaðasti hundur í heimi“ en gaf mér ekki leyfi til að sýna það, FYRR EN ég tók ákvörðun um að ELSKA MIG, fyrir allt sem ég er, allt sem ég stend fyrir og baða mig í því að finnast ég nægilega góð! Finnast ég bara stór fín! Og maður minn hvað það er mikill léttir, að leyfa sér að vera bara í sátt við sig, hlæja, bulla og vera eins og togarasjómaður ef svo ber undir. Hver segir að við þurfum að vera dömur, nú eða herrar…verum bara við. Ég legg mig þó fram við að vera sanngjörn og heiðarleg við alla jafnt og sjálfa mig.
En þó slagurinn við sjálfa mig standi oft á tíðum enn, þá er ég búin að synda nánast í land, því ég veit leiðina og kann í dag að tala við þetta barn sem er innra með mér, því þar hefst allt. Í barnæsku. Hvað fylgdi þér úr þinni æsku?

Elskum okkur ávallt fyrir það sem við erum ❤

SHARE