Oreo-karamellu súkkulaðipæ (Vegan)

Fengum þessa geggjuðu og einföldu uppskrift frá Eldhússystrum.

Það eru bara 5 hráefni í þessu pæ-i.. Hún er syndsamlega góð og sjúklega djúsí. Það passar fullkomlega að drekka kaffi og fá sér smá (lesist: stóra) sneið af þessari dásemd. Hún er temmilega fljótgerð, auðveld og það þarf ekki að baka hana. Það eina sem þarf er pláss í ísskápnum.

Oreo-karamellu súkkulaðipæ
36 oreos kökur
120gr + 120gr smjör
1/4 bolli + 1 bolli rjómi
2/3 bolli púðursykur
340 gr dökkt súkkulaði

Byrjið á að búa til botninn, best er að notið lausbotna kökuform.
Setjið oreos kökurnar í blandara og myljið þær vel. Bræðið 120 gr af smjöri og hrærið saman við oreos kökurnar. Hellið oreos kökunum í kökuformið og þjappið þeim í botninn og upp með hliðunum á kökuforminu. Ef þið eruð með 24 cm form er óþarfi að láta degið ná alla leið upp, 1/3 dugar. Ef formið er minna má það ná vel upp eða 2/3 amk. Setjið botninn í kæli í amk 15 min.

Næsta mál á dagskrá er að útbúa karamelluna. Setjið 120 gr af smjöri og púðursykurinn í pott á miðlungs hita. Bræðið smjörið og hrærið því saman við púðursykurinn og hrærið stanslaust. Þegar blandan fer að sjóða er mikilvægt að hræra stanslaust í 1 mínútu, takið af hitanum og hrærið saman við 1/4 bolla rjóma þar til karamellan er kekkjalaus. Láið karamelluna kólna.
Brytjið niður súkkulaðið og setjið það í skál. Hitið 1 bolla af rjóma að suðu og hellið síðan yfir súkkulaðið. Hrærið saman þar til allt súkkulaðið er bráðnað.
Takið botnin út úr ísskápnum, hellið karamellunni í bontinn og hellið súkkulaðinu yfir karamelluna. Stráið flögusalti yfir eftir smekk.

SHARE