Vísir.is greindi frá því fyrir skömmu að hestur hafi orðið fyrir hræðilegri áras þegar ör var skotið 15 cm inní læri hestsins.
Búið er að kæra atvikið til lögreglu og eru eigendum hestsins verulega brugðið.
„Það er skrýtið að gera dýri svona, þetta hefur verið einhver hálfviti. Maður skilur bara ekkert hvað vakir fyrir fólki sem gerir svona lagað,“ segir Arnar Kjærnested eigandi 24 vetra Ýmis frá Bakka í samtali við Vísi.
Hann segir ljóst að örinni hafi verið skotið af miklu afli og af skömmu færi. Mildi þykir að ekki fór verr en Ýmir er nú á batavegi.
„Það er heppni að þetta fari í læri á honum en ekki magann eða önnur líffæri. Þannig við erum þakklát því en auðvitað bara í miklu sjokki að þetta skuli gerast hér,“ segir Arnar en segist ekki hafa hugmynd um hvað geti hafa vakið fyrir geranda að slíku ódæðisverki.
Dýralæknir var kallaður til og atvikið umsvifalaust kært til lögreglu.
„Það var gert að honum hér í gær og hann fengið meðöl. Eins og ég segi hefði þetta ekki getað farið mikið betur. Við erum hérna fjölskylda og maður fer í alls konar rugl-getgátur líka. Maður verður fyrst hissa, svo vondur en maður verður auðvitað skefldur líka. Að vita til þess að það sé einhver hér á ferð með ör og boga, maður hélt hreinlega að þetta gerist ekki á þessum slóðum.“
Hvað gengur fólki til ? Þvílíkur hrottaskapur.