Það var uppi fótur og fit í Bónus við Smáratorg um helgina þegar í ljós kom að jólatréð í versluninni var horfið. Öryggismyndavélar í verslun Bónus náðu þjófnum á myndum og í ljós kom að þar var sjálfur Trölli (the Grinch) á ferðinni. Trölli virðist hafa falið sig innandyra og beið eftir því að allir voru farnir og versluninni lokað. Hann spratt þá upp og fór á kreik og sést sniglast um gangana. Öryggismyndavélar verslunarinnar eltu kostulega för hans. Trölli sést koma að jólatrénu stóra í Bónus og stela því. Þar næst dröslast hann með jólatréð í burtu út í dimma og kalda nóttina.
,Þótt Trölli hafi stolið jólatrénu þá látum við hann ekki stela jóla stemningunni og gleðinni í Bónus. Málið er í rannsókn hjá okkar besta fólki. Við vitum að Trölli er vænsta skinn inn við beinið þótt hann taki upp á ýmsu þegar jólin nálgast og vonandi verður Trölli búinn að finna gleðina á aðfangadag. Kannski fáum við þá sjá Trölla aftur og jólatréð til baka,“ segir Baldur Ólafsson markaðsstjóri Bónus.