Pamela Anderson (55) segir að hún hafi ekki unnið með neinum eða látið einhvern annan skrifa æviminningar sínar. Bókin hennar, „Love, Pamela“, kemur út 31. janúar og mætti hún í viðtal á miðvikudag hjá Howard Stern til að segja frá sögunni sinni. Í viðtalinu segir hún að hún hafi lent í vanda með að sannfæra fólk um að hún gæti skrifað söguna sína, án hjálpar, og eins hafi skrifstörfin tekið sinn toll af henni.
Pamela þyngdist um rúm 11 kg við skrif bókarinnar og sagði: „Þetta var alveg galið að ég fengi líkamleg viðbrögð við því að segja söguna mína,“ sagði hún og bætti við að hún hefði lést aftur í sína venjulegu þyngd eftir að hún kláraði bókina. „Þetta var eins og ég væri að halda í eitthvað. Þetta var svona eins og verndarhjúpur eða skjöldur. Ég veit ekki hvað þetta var en mér fannst þetta vera einskonar vörn.“
Seinna í viðtalinu segir Pamela að hún hafi ekki vitað af framleiðslu þáttanna „Pam & Tommy“ fyrr en farið var að auglýsa að þeir væru að koma út. „Það hringdi enginn í mig. Það spurði mig enginn álits. Ég er enn á lífi!“ sagði Pamela.