Ég hef verið einn af þeim sem hef ekki og nenni ekki að skipta mér mikið af öðru fólki og vera með leiðindi. Það er einhvernveginn svo miklu auðveldara að gera og segja ekki neitt frekar en að kalla yfir sig hugsanleg leiðindi. Þetta á að vissu leiti einnig við með uppeldið á krökkunum mínum. Þó reyni ég að halda uppi ákveðnum aga og að kenna krökkunum muninn á réttu og röngu.
Fólk er misjafnt og á meðan ég hef mínar skoðanir geta aðrir haft allt aðrar skoðanir. En það má líka alveg breyta um skoðanir og þá sérstaklega ef reynslan kenni þér eitthvað annað.
Hvenær á maður að skipta sér af? T.d ef þú heyrir nágrannana vera rífast heiftarlega eða ungmenni eru með partý eða óeðlilega mikil læti. Ég er svona týpískur maður sem myndi bara leiða þetta hjá mér og hugsa að ég væri bara að trufla lögregluna ef ég myndi tilkynna eitthvað svona.
Svoleiðis afskiptasemi bjargaði lífi unglingsdóttur minni. Eins og margir kannast við þá getur verið snúið að eiga við unglinga. Þau eru nýbyrjuð í menntaskóla og allt í einu á örfáum vikum breytast þau úr barni í forvitin ungmenni. Þetta er bara gangur lífsins og það sem flestallir foreldra þurfa að ganga í gegnum.
Dóttir mín er engin undantekning. Allt í einu er hún farin að hafa áhuga á því að mála sig og gera sig voða fína fyrir daginn. Það sem er þó hættulegast finnst mér er að ungmennin fara líka að sýna “partý-um” og áfengi áhuga þar sem áfengi er einhvernveginn svo samþykkt í samfélaginu þrátt fyrir að vera hrikalega skaðlegur vímugjafi og svo virðist sem sumir foreldrar nenna ekki að taka “slaginn” við barnið sitt og kaupa frekar áfengi handa krökkunum sínum til að fylgjast frekar með því hvað þau eru að drekka og kalla það “forvörn”.
En það er önnur saga sem ég ætla ekki að fara útí hér. Þetta kalda föstudagskvöld sem dóttir mín ætlaði að gista hjá vinkonu sinni hefði auðveldlega getað endað líf hennar ef það væri ekki fyrir “afskiptasamri” manneskju. Það var nefnilega aldrei ætlunin að bara fá að gista og horfa á góða mynd með vinkonum sínum. Þær voru búnar að plana það að prófa að smakka áfengi og höfðu þær sjálfar komist yfir sterkt áfengi. Dóttir mín sem aldrei hafði áður smakkað áfengi var þarna að prófa sig áfram og samkvæmt hennar sögn ekki fundið mikið á sér við fyrstu sopana og því drukkið alltof of hratt á meðan hún áttaði sig ekki á að áhrifin koma ekki strax. Stelpurnar ákveða kíkja út og ganga um hverfið og svo gerist það allt í einu. Áhrif alkahólsins “kick-a” inn og drepst dóttir mín áfengisdauða. Þetta kvöld var hitastigið -8 gráður og hún illa klædd. Einhverntímann í öllu þessu ferli hafði einhver í nágrenninu orðið var við einhver öskrum og hugsanlega fíflalátum og hringt á lögregluna. Eitthvað sem ég hefði örugglega aldrei gert þar sem ég nenni ekki að vera “Skúli fúli” og eyða dýrmætum tíma lögreglunar í eitthvað sem “skiptir engu máli”.
En þessi manneskja sem ég veit ekkert hver er bjargaði líklegast lífi dóttur minnar. Barnið mitt lá meðvitundarlaus þegar lögreglan kom á staðinn. Kallað var strax á sjúkrabíl og hún flutt um leið á bráðamóttökuna algjörlega meðvitundarlaus. Líkamshiti hennar var komin niður fyrir 33°C gráðu og þarf varla að spyrja að því hvað hefði gerst ef hún hefði legið þarna í nokkra klukkutíma í viðbót. Það var ekki fyrr en á þessari stundu sem við fengum símtal og fengum að vita hvað hefði komið fyrir. Maður var bara áhyggjulaus heima, haldandi það að dóttir mín væri bara í kósý með vinkonum sínum.
Með þessum skrifum er ég ekki að skammast í henni né vinkonum hennar enda erum við búin að taka vel á þeirri umræðu við hana síðan þetta gerðist. Mig langar bara svo svakalega mikið til þess að segja TAKK við þessa manneskju sem hringdi þarna á lögregluna þetta kvöld. Ég á rosalega erfitt með að hugsa útí það ef engin hefði skipt sér að þeim og reyni helst að blokka þá hugsun. En ég veit að með því að vera vakandi í samfélaginu og skipta sér stundum af ef þér finnst eitthvað óeðlilegt vera í gangi getur þú bjargað mannslífi.
Takk þú elsku afskiptasama manneskja .
ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú vilt deila reynslu þinni í Þjóðarsálinni, mátt þú endilega senda okkur póst á hun@hun.is og saga þín verður birt. Þú ákveður hvort hún eigi að vera nafnlaus eða ekki.
Sjá einnig: