Þessi gríðarlega girnilega uppskrift kemur frá Ragnheiði á Matarlyst. Það er afar fallegt að bera frómasinn fram í fallegu glasi.
Myljið 3 makkarónur í hvert glas, hellið einum tappa af Baileys ofaná. Setjið frómas í ofaná ca 3 msk fer eftir stærð glasins jafnið út og skreytið að vild t.d með daim kurli. Þessi uppskrift fer í u.þ.b 8-10 glös.
Hráefni í frómas
½ líter rjómi þeyttur
3 egg
90 g sykur
5 matarlímsblöð
¾-1 dl Baileys
100 g Daim kurl
Aðferð
Leggið matarlím í kalt vatn. Þeytið rjóma og leggið til hliðar í aðra skál. Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst. Vindið matarlímið, setjið í skál ásamt Baileys bræðið saman yfir vatnsbaði þ.e setjið örlítið vatn í pott, leggið skálina ofaní hitið þar til matarlím er bráðið. Hellið því varlega saman við eggjablönduna í mjórri bunu þeytið varlega saman. Blandið rjómanum varlega saman við með sleikju. Bætið Daim kurlinu út í blandið saman. Setjið í falleg glös eða í skál, gott er að kæla í a.m.k í 5 tíma eða yfir nótt.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.