Sóley Kristjánsdóttir var gestur Fullorðins hlaðvarps nýverið og hefur marga fjöruna sopið en hún fæddist í Svíþjóð og átti frekar unga foreldra. Hún ólst upp í stúdentahverfi í Svíþjóð og flutti ekki heim til Íslands fyrr en hún var 12 ára.
„Fyrsta árið hérna heima, langaði mig bara að flytja aftur til Svíþjóðar. Mér fannst mjög erfitt að koma til Íslands og ég fékk bara áfall yfir því hvernig íslenskir unglingar töluðu sín á milli. Ég var að koma úr frekar vernduðu stúdentaumhverfi þar sem ég var bara með grasbletti á hnjánum og var úti að leika mér allan daginn,“ segir Sóley um æskuna sína og minnist þess að hún hafi komið heim og tilkynnt foreldrum sínum að hún þyrfti að eignast „eitthvað sem kallast Levi’s gallabuxur“.
Unglingsárin urðu flóknari
Um unglingsárin segir Sóley að hún hafi flutt í Álfheimana og þar hafi hún lent og orðið sáttari við umskiptin, eignast vinahóp og tengst krökkum.
„Ég var rosalega góður unglingur, þangað til ég var það ekki,“ segir Sóley og hlær. „Ég man eftir því sem barn að hafa sagst aldrei ætla að drekka eða reykja. Mér datt ekki einu sinni í hug að segjast ekki ætla að nota eiturlyf því ég vissi ekki einu sinni hvað það var.“
Vinkona Sóleyjar úr Vesturbænum flutti til Keflavíkur og þá fór hún að venja komu sína í Keflavík og eignaðist kærasta þar. Krakkarnir þar drukku og kærastinn hennar líka og þau reyktu sígarettur sem Sóley var mjög mótfallin.
„Sumarið eftir 9. bekk drakk ég í fyrsta skipti og í kringum 10. bekk og eftir 10. bekk drakk ég bara og það var bara „beisik“. Ég lét mig hverfa af heimilinu og bróðir minn á minningu um að mér hafi verið neitað um að fara út og ég læt mig bara hverfa,“ segir Sóley.
Lenti á sínum botni 23 ára
Aðspurð um það hvort það hafi verið drykkja á æskuheimilinu segir Sóley að það hafi vissulega verið drukkið á heimilinu. Pabbi hennar drakk og mamma hennar gerði minna af því:
„Ég var með eitt foreldri sem var á staðnum og annað sem var mun minna á staðnum. Það voru oft partý á heimilinu og ég þekkti flesta vini foreldra minna og börnin þeirra. Svona eftir á að hyggja var allskonar í gangi og ég lendi á mínum botni þegar ég var 22-23 ára og leitaði mér aðstoðar fyrir aðstandendur alkóhólista.“
Sóley segir pabba sinn hafa farið í meðferð þegar hún var 17 ára og segist muna svo vel eftir því að hann hafi komið heim úr meðferð og verið með „sjúkdóm“: „Ég hugsaði bara „já góð afsökun fyrir að vera fáviti, frábært“. Við fórum á námskeið fyrir aðstandendur alkóhólista og ég hugsaði bara að þetta kæmi mér bara ekkert við og þetta hefði engin áhrif á mitt líf. En svo tæpum 6 árum síðar lenti ég á þessum vegg og ég leitaði mér aðstoðar fyrir aðstandendur og það hjálpaði mér alveg rosalega mikið.“
Ef þú vilt heyra viðtalið í heild geturðu smellt hér og skellt þér á áskrift.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.