Er jöfnuður í velferðarsamfélagi búinn til með því að skerða lífskjör langveikra og fólks með króníska ólæknandi sjúkdóma?
Ég vil skora á Velferðarráðherra að draga til baka breytingar á lyfjalögum. Þessar breytingar eru illa ígrundaðar og munu koma virkilega illa við 30 þúsund einstaklinga sem eru langveikir eða með króníska sjúkdóma og koma til með að þurfa að greiða fyrir lyf sem áður voru niðurgreidd að fullu. Þessi kostnaður kemur til með að hlaupa á tugum þúsunda á ári.
Ég átta mig ekki á hvernig hægt er að hundsa hagfræðilegargreiningar á því hvernig kostnaður heilbrigðiskerfisins komi til með að aukast til muna ef fullri niðurgreiðslu á t.d insúlíni er hætt. Ég tala nú ekki um önnur lyf eins og lyf fyrir flogaveika og krabbameinssjúka.
Fylgikvillar ómeðhöndlaðar eða illa meðhöndlaðrar sykursýki eru alvarlegir og kostnaður heilbrigðiskerfisins verður gríðarlegur þegar það þarf að taka við fólki inn í kerfið sem er þá orðið alvarlega veikt vegna þess að það hefur ekki haft efni á að leysa út insúlín sem er þeim lífsnauðsynlegt. Ekki nóg með að fólk komi veikt inn í heilbrigðiskerfið heldur kemur það svo til með að enda á framfærslu almannatryggingakerfisins með tilheyrandi kostnaði fyrir hið opinbera. Þetta kallar maður að kasta krónunni til að spara aurinn.
Ég á erfitt með að átta mig á því hvernig flokkar sem telja sig velferðarflokka geti réttlætt það að hætta fullri greiðsluþátttöku á lyfjum til fólks með króníska og ólæknandi sjúkdóma. Þið berið fyrir ykkur jöfnuð á milli sjúkdóma en með fullri virðingu þá er sjúkdómur ekki bara sjúkdómur. Það er ekki hægt að bera saman króníska, ólæknandi og lífshættulega sjúkdóma við alla aðra sjúkdóma.
Það er skammarlegt að senda forstjóra Sjúkratrygginga í fjölmiðla og kynna þetta nýja kerfi sem einhverja framför. Það er skömm að því að sjá hvernig kerfið er kynnt á sjukra.is eins og guðs gjöf stjórnvalda til sjúklinga. Það er skömm að því að þessu skuli verið laumað inn án nokkurrar umræðu við fagfólk í heilbrigðiskerfinu og sjúklinga og enginn getur hreyft nokkrum mótmælum því nýtt kerfi skal tekið í notkun með góðu eða illu 4. maí.Það er skömm að því að Velferðarráðherra skuli ekki hafa komið í fjölmiðlum og svarað gagnrýni langveikra, öryrkja og fólks með króníska sjúkdóma á kerfið. Það er skömm að því að ítrekuð erindi frá fyrrverandi yfirlækni á göngudeildsykursjúkra hafi verið hundsuð. Það er skömm að þessu öllu saman.
Ég styð jöfnuð og borga háa skatta með glöðu geði því ég tel mig búa í velferðarsamfélagi þar sem ég get treyst á það að fá lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu og lyf ef til þess kemur.
Þessi breyting er illa kynnt og sett fram með þvílíku offorsi. Ég á líka erfitt með að skilja það. Hvað liggur á? Hvers vegna eru afleiðingarnar af breyttu kerfi ekki skoðaðar ofan í kjölinn? Þessar breytingar voru samþykktar fyrir nokkrum dögum og eiga að taka gildi 4. maí.
Ég ræddi við minn innkirtlafræðing á dögunum sem gat ekki upplýst mig neitt um nýtt fyrirhugað kerfi því það hefur ekki verið kynnt læknum né sjúklingum. Ég ræddi við starfsmenn í apóteki sem gátu heldur ekki útskýrt fyrir mér hvernig ég ætti að leysa út lyfin mín ef ég gæti ekki borgað 30 þús kr í einu lagi. Og það er ódýr afsökun að segja fólki að leysa út minni skammta í einu. Nóg er fyrirhöfnin fyrir þó svo það bætist ekki við ferð í apótekið á nokkra vikna fresti því fólk hafi hreinlega ekki efni á að leysa út eðlilega skammta af sínum lyfjum.
Velferðarráðherra skilur það ef til vil ekki en það er gríðarlegt álag sem fylgir því að vera með krónískan ólæknandi sjúkdóm. Það er ekki bara lyfjagjöf sem þarf að huga að. Það er ótal annar kostnaður sem fellur til þó ekki bætist við tugþúsundir á ári hverju vegna lyfjakostnaðar.
Fólk með langvinna krónískra sjúkdóma býr við mun verri lífsgæði en heilbrigt fólk. Fólk með króníska ólæknandi sjúkdóma þarf að lifa við þá staðreynd að lífslíkur þeirra eru mun verri en annarra. Finnst Velferðaráðherra virkilega krabbameinssjúkir, sykursjúkir, gigtveikir og flogaveikir og aðrir langveikir vera einhver forréttindahópur sem þarf að skerða hjá til að búa til jöfnuð?
Ég er ekki lágtekjumanneskja en ég sé ekki fram úr því að þurfa að reiða fram amk 30 þús kr til að leysa út fyrsta lyfjaskammt og það á hverju einasta ári þangað til ég dey, því það er staðreyndin sem ég bý við. Ég er með ólæknandi sjúkdóm þar sem eru engar aðrar leiðir færar fyrir mig en að sprauta mig með insúlíni oft á dag.
Það er skömm að þessu. Þessi ríkisstjórn ætti að nota síðustu daga sína til að leiðrétta þessi hrikalegu mistök sem hafa verið gerð.
Með von um að þessar breytingar verði teknar til rækilegrar endurskoðunar og dregnar tilbaka á meðan sú endurskoðun fer fram.
Hvet alla til að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um að draga þessar breytingar tilbaka
Höfundur greinar: Júlía Birgisdóttir