Það er erfið tilfinning að sætta sig við það að fá ekki að hitta fólk aftur þegar það fellur frá. Seinustu mánuði hafa margir í kringum mig látið lífið, sumir fyrir eigin hendi og aðrir hafa barist allt til enda til þess að fá að eiga einn dag enn, bara einn dag!
Það er á svona stundum þar sem maður sér hvað lífið getur verið óskiljanlegt.
Margir segja að sjálfsvíg sé sjálfselska og þeir sem taka til þess séu ekki að hugsa um aðstandendur sína. Ég held að við sem höfum ekki lent í því að sjá lífið svona svart og tilgangslaust getum ekki sett okkur í þessi spor, sem betur fer kannski, hver veit hvar maður væri þá?
Það sem ég hugsa frekar er að ég vildi óska að þessi manneskja hefði séð hversu stór gjöf lífið er, hversu heppin við erum að fá að vera til hér og nú. Lífið er bara núna, ekki í gær og ekki á morgun. Ég hef lifað eftir því í nokkur ár og það hefur gefið mér meiri fyllingu í líf mitt en ég get lýst í orðum. Ég hætti að hugsa um það sem ég hefði átt að gera og því sem ég hefði átt að láta ógert. Ég reyni á hverjum degi að einbeita mér að því sem ég þarf að gera og njóta þess, hvort sem það er að gefa barninu mínu morgunmat, taka bensín eða kaupa í matinn. Suma daga tekst þetta betur en aðra en þetta er góð aðferð fyrir manneskju sem hugsar of mikið til þess að njóta líðandi stundar.
Maður lærir líka ofboðslega margt af því að sjá einhvern sem manni þykir ofur vænt um ganga í gegnum það að vera sagt að hann sé veikur, en það séu samt batahorfur. Hann fær baráttuviljann og ætlar að sigrast á þessu og gengur í gegnum vítiskvalir til að bjarga lífi sínu og tekst á við það með ótrúlegu æðruleysi og berst til seinustu stundar. Allar þessar kvalir bera því miður ekki alltaf árangur.
Lífið þitt kæri lesandi gæti orðið langt en gæti líka orðið stutt, njóttu þess til fulls. Fólkið í kringum þig verður kannski ekki alltaf til staðar, hlúðu að þeim og láttu það vita að þú elskir og kunnir að meta það.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.