Nú nálgast sumarið og samkvæmt öllu er sumarið í raun komið. Sumardagurinn fyrsti er afstaðinn og því alveg í lagi að fara að undirbúa sig undir sumarið og öllu sem því fylgir. Nú byrjar fólk að taka út hjólin og börnin fá frjálsari útivistartíma. Ég hef séð alltof mikið af hjólandi börnum undanfarið sem eru ekki með hjálm. Mér finnst líklegt að þau hlaupi út og sleppi því að setja á sig hjálm án þess að foreldrarnir viti og því langaði mig bara að minna á mikilvægi þess að nota hjálminn.
Það er mikilvægt að börnin átti sig líka á því hversu mikilvægt það er að nota hjálm og mér persóulega finnst nauðsynlegt að við fullorðna fólkið séum fyrirmyndir og notum hjálma líka, enda alveg jafn mikilvægt fyrir okkur að nota hjálm.
Það er ekki nóg að vera bara með einhvern hjálm heldur þurfa þeir að vera góðir. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar við veljum hjálm.
* Mjög mikilvægt er að nota einungis viðurkennda hjálma en þeir bera merkinguna CE.
* Hafi barnið ekki notað hjálminn lengi þarf að byrja á því að kanna hvort hann passi ennþá.
* Einnig er mikilvægt að kanna ástand hjálmsins; hvort hann sé illa farinn eftir að hafa t.d. verið hent oft í gólfið eða verið skemmdur á annan hátt.
Mikilvægt er að barnið komi með þegar hjólahjálmur er keyptur, það þarf að mæla ummál höfuðsins en það er gert yfir breiðasta hluta þess og svo er mikilvægt að passa að hjálmurinn passi vel.
Það er ekki einungis nauðsynlegt að nota hjálma þegar börnin hjóla heldur líka á línuskautum, hjólabretti ofl. Þá þarf að nota hlýfar líka.
Það að nota hjálm er alveg jafn mikilvægt og að nota bílbelti, pössum upp á að börnin noti hjálma!