Eins og ég hef sagt áður þá er ég frekar mikill íslenskulúði og það getur valdið mér smá gremju þegar ég heyri fólk fara illa með málið okkar. Eitt sem ég hef heyrt í mörg ár og hefur alltaf verið pirrandi, það er þegar fólk segir „sjáustum“ og „heyrustum“. Hvað er það eiginlega??!! Hver byrjaði eiginlega á þessu? Fyrir utan hvað þetta hljómar asnalega þá er þetta mun óþjálla en að segja einfaldlega bara „sjáumst“ og „heyrumst“, finnst ykkur ekki?
Annað sem ég verð að koma frá mér er að ótrúlegasta fólk segir mjög oft „Já það er nú ekkert svo óvitlaust“ og á þá við að það sé sniðugt. Hinsvegar ertu með þessari setningu að segja að hluturinn sé „vitlaus“. Nær væri að segja „Já það er ekki vitlaust“ eða „já það er óvitlaust“. Ef maður segir að eitthvað sé ekki óvitlaust þá er það vitlaust.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.