Fjallháir haugar af líkum safnast upp í Nígeríu – Íslamstrúar ofsóttir og myrtir

Íslamstrúar ofsóttir og myrtir.
Það var komið með nýjan farm af líkum, 29 talsins og þeim skilað í líkgeymslu hersjúkrahússins. 

Allt í einu fóru þrjú „líkin“ að hreyfa sig.

Þeir höfðu ekki verið skotnir almennilega svo að kallað var  á hermann til að ganga frá þeim.

Venjulega er betur að verki staðið en þetta. Iðulega er komið með 60 lík á dag.  Íbúar Nígeríu sem eru íslamstrúar eru ofsóttir  og myrtir og herinn notaður til drápanna.

Mennirnir sem komið var með þennan dag voru allir ungir. Þeim var gefið að sök að þeir væru félagar í Boko Haram sem eru samtök öfgafullra íslamstrúarmanna sem berjast á móti stjórnvöldum í Nígeríu.  Farið var með þá á afvikinn stað þar sem þeir voru pyntaðir og skotnir.

Stríðið hófst árið 2009

Stríðið milli Boko Haram og hersins byrjaði 2009 og hefur kostað nærri fjögur þúsund manns lífið. Herinn er sakaður um að hafa hvað eftir annað smalað fólki saman og skotið það án dóms og laga. Talsmenn hersins neita öllum ásökunum en mörg vitni þar á meðal starfsmenn hjálparsamtaka vita betur.

Það er vitað mál að félagar í  Boko Haram sem hafa gengist við ýmsum drápum og ofbeldisverkum  búa innan um aðra íbúa staðarins. Þess vegna er erfitt að uppræta samtökin án þess að saklaust fólk verði fyrir barðinu á ofbeldinu.  Þegar svo líkunum er hent í líkhúsið sést ekki hverjir eru saklausir og hverjir sekir um ofbeldi. En margir hafa snúist á sveif með Boko Haram þegar þeir hafa saklausir orðið fyrir barðinu á ofbeldi hersins.

Ríkisstjórinn í Nígeríu sem verður að tala varlega til að styggja ekki herinn hefur tjáð sig um að hann hafi áhyggjur af aðferðum þeirra.  Hann segir að þeir komi með vörubílafarma af líkum hvern einasta dag. Og sum líkanna eru enn með handjárnin á sér og ummerki um pyntingar– þó að það eigi að heita að verið sé að koma með fólk af hersjúkrahúsi.

Talsmaður hersins,  Sagir Musa neitar ásökunum um ómannúðlega meðferð á föngunum. Hann segir herinn vera að koma á lögum og reglu.

Það getur auðvitað verið að einn eða tveir hafi dáið í haldi hjá okkur en að segja að fimm eða sex hafi dáið er út í hött.“  „Við pyntum ekki fanga okkar,“ hélt hann áfram. „Við eigum ekki einu sinni pyntingatæki“

Fólk hefur það slæmt í Nígeríu

Íbúar staðarins hafa margar hryllingssögur að segja af ofbeldi og mannshvörfum.  Fólki er í raun ekki vært lengur í húsum sínum í nágrenni við líkhúsið vegna hins ægilega óþefs sem leggur þaðan. Menn sem hafa sloppið eftir handtöku segja ótrúlega ljótar sögur af meðferðinni.

Þrátt fyrir alla þessa grimmd eru engin merki þess að félagar í Boko Haram sem vilja öðlast sjálfstjórn héraðs íslamstrúarmanna muni hætta baráttu sinni og herinn ætlar sér ekki að gefa neitt eftir. Baráttan hefur þegar staðið í nokkur ár og hefur harðnað upp á síðkastið.

 

Heimildir New York times. 

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here