Ekki láta heimalestur barnsins verða að kvöð sem veldur ykkur báðum kvíða og ergelsi

Nú þegar þessi vetur er að renna sitt skeið og skólinn fer að hleypa börnunum út í sumarið langar mig að deila með ykkur nokkrum hugrenningum um lestur.

Ég er að ljúka sextánda starfsári mínu sem kennari, þar af síðustu sex ár sem kennari á yngsta stigi. Flest börn bíða spennt eftir fyrsta skóladeginum í 1. bekk. Það sem veldur þeim mestum spenningi er vissan um að nú muni þau læra að lesa, helst á fyrsta degi! Það er mjög mikilvægt að kennarar og foreldrar sameinist um að viðhalda þessum lestraráhuga. Þegar börnin eru orðin stautfær og eru farin að fá bók til heimalestrar er mjög mikilvægt að foreldrar aðstoði og hvetji börnin til að lesa heima á hverjum degi. Oft er ráðlagt að börnin lesi tvisvar til þrisvar sömu blaðsíðuna. Þetta hjálpar þeim og hvetur þau til að byrja með til dáða því þau finna að þegar þau lesa í annað og þriðja sinn þá verður lesturinn auðveldari og þau geta lesið hraðar því þau þekkja orðið textann. Þrátt fyrir að þau kunni hann orðið utan að þegar þau lesa í þriðja sinn þá eru þau að fá lestrarþjálfun því þau eru að renna augunum eftir línunum. Þegar börnin eru hins vegar búin að ná sæmilegri færni og eru farin að lesa meiri texta getur þessi endurtekning algjörlega drepið niður áhugann á að lesa heima. Þetta hef ég margoft séð bæði í starfi mínu sem kennari og sem foreldri fjögurra barna . Foreldrar hafa verið í vandræðum heima og heimalesturinn verður ekki sú ánægjulega samverustund sem hann á að vera. Þá þarf að grípa til annarra ráða, við megum ekki drepa niður áhuga barnanna því áhuginn getur lyft grettistaki! Við verðum að viðhalda honum og hvetja börnin til að halda áfram að lesa í sumar til að þau missi ekki niður færnina sem þau fengu í vetur.

Mig langar til að gefa ykkur nokkur ráð sem hafa reynst mér vel og sem ég hef oft ráðlagt mínum foreldrum.

1. Lestu fyrir barnið. Þegar við lesum fyrir börnin okkar erum við ekki einungis að eiga með þeim gæðastund heldur erum við að auka orðaforða þeirra, vekja áhuga á bókum og þar með beinlínis ýta undir lestrargetu.

2. Farðu með barninu á bókasafnið. Hvettu barnið og hjálpaðu því til að velja sér bækur sem það hefur áhuga á og hæfa lestrargetunni. Allt hjálpar, líka myndasögur!

 

3. Lestu með barninu. Reyndu að finna hvað vekur áhuga barnsins hvort sem það er bók, myndasaga, íþrótta síðurnar í blöðunum eða efni af netinu. Ef textinn er of erfiður getið þið lesið saman. Barnið getur lesið auðveldu orðin og þú þau þyngri.

4. Skiptist á að lesa heimalestrarbókina. Ef barnið er orðið þreytt á heimalestri er oft gott ráð að skiptast á. Semdu um það við kennarann (því það er mikilvægt að barnið finni að kennarinn samþykki ráðslagið) að barnið lesi eina blaðsíðu og þú svo eina. Ef barnið á að lesa tvisvar er gott að fara milliveg og lesa t.d. þrjár blaðsíður en aðeins eina blaðsíðu tvisvar.

 

Umfram allt: ekki láta heimalesturinn verða að kvöð sem veldur ykkur báðum kvíða og ergelsi. Finnið leið sem þið getið öll verið sátt með, barnið, þú og kennarinn.

Lesið í sumar!

Höfundur: Geirlaug Ottósdóttir, grunnskólakennari.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here