Dásamlegt bananabrauð með súkkulaði – Uppskrift

Þessa uppskrift fengum við í láni hjá Thelmu en hún heldur úti síðunni Freistingar Thelmu sem má finna hér.
Síðan hennar er ótrúlega falleg með frábærum, góðum og einföldum uppskriftum ásamt hugmyndinum fyrir hin ýmsu tilefni.
Ég fæ vægast sagt vatn í munninn leið og ég hugsa um að fara inná síðuna en hef prufað allavega uppskriftir frá henni Thelmu sem hafa ekki svikið.

Brauðið er einstaklega gott með smjöri og osti en einnig segir hún að Mr.handsome (maðurinn hennar) hafi búið til sitt eigið möndlu og hnetusmjör sem er ekki af verri endanum heldur ofan á þetta ljúffenga bananabrauð.

Innihald:
125 g smjör við stofuhita
175 g púðursykur, dökkur
2 egg
3 bananar (gott að hafa þá brúna)
100 g dökkt súkkulaði
250 g hveiti
½ tsk. sjávarsalt
2 tsk. lyftiduft
1 kúfuð tsk. kanill

Aðferð:
Hrærið smjöri og sykri saman þangað til það hefur blandast vel saman. Setjið eitt egg í einu og hrærið á milli. Stappið bananana og bætið þeim saman við, hrærið. Blandið saman þurrefnunum og hrærið vel. Því næst setjið þið súkkulaðið saman við, grófsaxað. Smyrjið 1 lítra brauðform eða setjið bökunarpappír ofan í og hellið deiginu í. Bakið í u.þ.b. 1 klst. við 175 gráður.

Njótið vel
Freistingar Thelmu

SHARE