Nú er komið að því, Eurovisiondagur runnin upp og lokakeppnin í kvöld. Þau eru væntanlega ófá Eurovision-partýin sem verið er að undirbúa heima og svo eru örugglega einhverjir Euronördar eins og ég sem vilja ró og frið svo þeir geti fylgst almennilega með keppninni! 🙂
Keppnin í ár er búin að vera mjög skemmtileg, það hefur reynst erfitt að spá mikið fyrir um úrslit hingað til og ég verð að segja að það sama er upp á teningnum í kvöld. Það eru nokkur lönd sem geta tekið þetta og ég er ekkert svo viss um að sigurinn hjá Danmörk verði “walk in the park” eins og margir halda, en það gæti svosem líka verið algjört kjaftæði hjá mér! Það verður gaman að sjá hvernig kosningin fer í kvöld og hvort það hafi einhver áhrif á hvernig Júgóslavíulöndin gefa atkvæði sitt að þau séu ekki með í úrslitunum. Það er allt galopið og það stefnir í spennandi Eurovisionkvöld. Lítum á þau lönd sem ég tel að eigi séns á því að vera ofarlega (vinna) í kvöld, þau eru ansi mörg!
Danmörk: Emmelie De Forest – Only Teardrops
“We only got our selves to blame, it’s such a shame” syngur Emmelie De Forest fyrir Danmörk. Þetta lag hefur verið uppáhald Eurovisionspekinga og veðbanka í mjög langan tíma og allir spá því sigri. Lagið er jú mjög sigurstranglegt en ég er ekki sannfærður ennþá. Það er þó pottþétt að þetta lag verður orfarlega.
Georgía: Nodi & Sophie – Waterfall
Þetta er alveg massa leiðinlegt lag! Það er Eurovision lagahöfundurinn mikli Thomas G:Son sem semur þetta lag, en hann hefur samið “milljónir” laga fyrir Eurovision og á nokkur lög í keppninni í ár. Svo samdi hann víst eitthvað lag sem heitir Euphoria sem var rosa vinsælt í fyrra… En Georgía er hérna með mjög sterkt lag og það er mjög vel flutt af þeim Nodi og Sophie. Því miður tel ég að þetta eigi mjög sterka möguleika í kvöld, bæði vegna þess hvað þau er seint í röðinni og svo geta Júgóslavíuatkvæðin beinst þangað. Þetta minnir líka smá á sigurlag Azerbaijan 2011… og gæti læðst upp í fyrsta sæti líkt og það lag gerði.
Noregur: Margaret Berger – I Feed You My Love
Ég kann alltaf betur og betur við Noreg. Hún Margaret er svakalega töff, er dj og vinnur sem tónlistarstjóri útvarpsstöðinni á NRK P3 sem er ein af ríkisstöðvum Noregs. Lagið er svo öðruvísi að það á eftir að smjúga í gegnum tæki Evrópubúa og vonandi eiga atkvæðin eftir að skila sér í hrönnum. Samkvæmt því sem ég heyri frá Malmö þá batnar flutningurinn bara með hverri æfingunni þannig að ég held að það sé bjart framundan fyrir Noreg. Við gefum þeim örugglega 10 stig!
Azerbaijan: Farid Mammadov – Hold Me
Slúðursagan í Malmö segir að Farid séu í þessu lagi að velta fyrir sér hvort að hann hneigjast til kvenna eða karla í þessu, sem útskýrir karlinn í kassanum og svo konuna sem stormar inn á sviðið 🙂 Að öllu gríni slepptu eru Azerar mættir enn á ný með mjög sterkt lag og verða í Topp 5 í kvöld, það er engin spurning. Þeir gætu jafnvel “stolið” sigrinum og keppnin verið á leið aftur til vindaborgarinnar Baku að ári!
Rússland: Dina Garipova – What if
Það er klárt mál að Mother Russia verður ofarlega í keppninni í kvöld, pólitískt séð og svo er lagið ekkert svo slæmt. Ekkert mikið meira um það að segja, þetta er bara svona skylduáskriftar land og lag!
Þýskaland: Cascada – Glorious
Ef þau skila þessu lagi sæmilega af sér og söngkonan Natalie heldur lagi þá getur þetta gert gott mót. Þetta er reyndar þannig lag að það getur gjörsamlega fallerað og ekki gert neitt. Annað hvort verður það ofarlega eða neðarlega. Hér er enginn millivegur, ég ég hallast þó að því að þessu lagi muni ganga vel í kvöld.
Írland: Ryan Dolan – Love only survives
Ryan stígur síðastur á við og setur væntanlega Evrópumet í spraytani í kvöld, líkt og um daginn í undankeppninni. Þetta er ágætis danslag og myndavélin hatar hann heldur ekkert þannig að ég held að þetta gæti alveg gert fína hluti fyrir Írland, aðallega vegna staðsetningarinnar!
Holland: Anouk – Birds
Þetta lag er ekki eins og neitt annað í keppninni og hún flytur það svakalega vel! Lagið gæti auðveldlega smokrað sér í toppbaráttuna í kvöld, í fyrsta skipti í mööörg ár sem það gerist hjá Hollendingum! Örugglega partý þar í kvöld og full ástæða til þess að fylgjast grant með gangi þessa lags í kvöld. Ég er hand viss um að við gefum þessu lagi nokkur stig.
Svíþjóð: Robin Stjernberg – You
Hérna er annað lag sem við eigum eftir að gefa stig! Ef drengurinn flytur þetta sæmilega í kvöld þá sækir hann eflaust töluvert af stigum til Evrópu og verður inn á topp 10. Ég er hinsvegar ekki viss um að hann verði að keppa um efsta sætið í kvöld!
Þessi 9 lög sem ég hef nefnt hér munu að mínu mati skipta með sér sætunum frá 1 – 9. Ég ætla að segja að það kæmi mér ekki á óvart að Azerbaijan eða Georgía sigri keppnina í kvöld. Ég hinsvegar vona að eitthvert norðurlandanna vinni þ.e. Danmörk og Noregur því þau eiga svo sannarlega möguleika á því.
Önnur lög sem ég tel að geti gælt við topp 10 í kvöld eru Bretland með Bonnie Tyler í fararbroddi, hún er mega stjarna víðsvegar í Evrópu og það yrði leiðinlegt að sjá hana ekki öðru hvoru megin við tíuna. Svo held að Eyþór “okkar” Ingi eigi eftir að gæla við tíuna líka og gæti smokrað sér rétt uppfyrir hana, því ég veit að flutningurinn verður frábær í kvöld. Finnland verður örugglega rétt við topp 10 líka. Þessi þrjú lönd, við, Bretland og Finnland munum berjast um auka sætið á topp 10 í kvöld.
Nú er bara að láta sig hlakka til kvöldsins, ná í fánann, andlitsmálninguna og hrópa áfram Ísland í kvöld. Ég er búsettur erlendis og get því kosið okkur í kvöld!! 🙂
Ég kem svo með pistil að lokinni keppni í kvöld og greini þá úrslitin.
Góða skemmtun!