Ég er staddur þar á mínum æviferli að ég er yfirleitt slituppgefinn og sé ekki fram á að ég endist út daginn.
Ég á þrjá drengi, sá elsti 5 ára. Ég kvarta ekki yfir því nema kannski svolítið. Og ég veit að til eru þeir sem myndu gefa hvað sem er í skiptum fyrir hús sem endurómaði af hlátrasköllum og er allt í óreiðu. Ég var í þeirra hópi árum saman. Sársaukinn sem fylgir ófrjósemi er mikill og lætur mann ekki í friði. Ég man að stundum kviknaði vonin en svo gufaði hún upp hvað eftir annað í sjö ár.
En nú á ég þrjá drengi, 5 ára og yngri. Oft eru þeir alveg yndislegir, eins og t.d. í síðustu viku þegar Ísak sagði mágkonu minni að pabbi væri loðinn alls staðar. Eða þegar Elías skellti grænu þvottaskykki á andlitið á sér og sagði rígmontinn „Pabbi, ég er með skegg alveg eins og þú“.Og þegar Benni læðist niður á morgnana á undan hinum strákunum og segir “Bara pabbi og Benni“.
Svo gerist það líka oft að ég sé ekki fram á að ég lifi af þangað til þeir fara í háttinn. Það er stöðugt suðað um eitthvað, mig vantar þetta og má ég fá hitt og svo er rifist – allan liðlangan daginn.
Ég er alveg viss um að einn af drengjunum mínum verður næsti Steve Jobs. Ég hef alltaf haft mikla samúð með foreldrum hans. Drengurinn minn veit upp á hár hvað hann vill- svona og ekki öðruvísi. Stundum er það diskurinn á matarborðinu, hann er ekki alveg fyrir miðjum stólnum. Stundum klæddi ég hann ekki rétt í sokkana og stundum lítur höfrungurinn ekki rétt út- hann á að vera hress, ekki með augu eins og hann sé að gráta, pabbi. Hann er eiginlega eins og leiser geisli og ekki ánægður fyrr en allt er eins og hann vill hafa það.
Ég skal alveg játa það að stundum þegar hann hefur sem hæst flý ég inn í herbergi og fel mig þar. Og ég mun hvorki játa því né neita að þá háma ég í mig kartöfluflögur eða suðusúkklaði.
Það er til fólk sem segir við mig: „Njóttu þeirra núna, þeir verða fullorðnir áður en þú veist af“.
Venjulega brosi ég og segi sem minnst en ég gæti alveg hugsað mér að hrella þetta fólk svolítið.
Ef vinir þínir eru með ung börn langar mig að biðja þig að segja aldrei svona við þau, sérstaklega ef krakkarnir þínir eru vaxnir úr grasi. Ekki af því að þetta sé ekki rétt heldur af hinu að það hjálpar manni ekki í stöðunni.
Auðvitað vaxa þau fljótt frá okkur. En þegar mér er sagt að ég eigi að njóta hverrar stundar finnst mér það ekki notalegt. Mér finnst það miklu frekar eins og enn ein skyldan sem er alveg ómögulegt að uppfylla. Og nú eru þannig skyldur allt of margar. Ekki eru allar stundir í foreldrahlutverkinu notalegar. Ég er viss um að þannig var það hjá þér og þannig er það hjá mér. Þú ert bara búin(n) að gleyma því og ég get alveg fyrirgefið þér það. Ef þú hins vegar ætlar að segja mér einu sinni enn að ég eigi að njóta hverrar stundar verð ég að hætta að tala við þig.
Ef þú átt lítil börn er alveg víst að þið eigið margar dásamlegar stundir saman. En ég ætla að fá að segja eftirfarandi upphátt:
Þú ert ekki slæmt foreldri þó að þér takist ekki að koma jafnhollri fæðu í börnin þín og börn vina þinna fá. Sennilega notar þessi vinur þinn mjög óvanalega og ef til vill líka ólöglega dáleiðsluaðferð við börnin sín.
Þú ert ekki slæmt foreldri þó að þú öskrir stundum á krakkana. Það búa smávaxnir harðstjórar á heimilinu með þér. Ef einhver annar hagaði sér eins og þeir gera færu þeir líklega í fangelsi.
Þú ert ekki slæmt foreldri þó þú kunnir ekki yfirvegaðan mótleik við hverju einasta hryðjuverki sem þau vinna af ótrúlegu hugmyndaflugi.
Þú ert ekki slæmt foreldri þó þú vildir frekar vera úti að vinna.
Þú ert ekki slæmt foreldri þó þú getir ekki beðið eftir að þau komi sér í rúmið.
Þú er ekki slæmt foreldri þó að þig langi mest af öllu að verða ofurölvi þegar þú heyrir í þeim.
Þú ert ekki slæmt foreldri.
Þú ert bara foreldri með þínar takmarkanir. Þú getur ekki allt. Það er jafngott fyrir okkur að átta okkur á að í samfélagi okkar sem er að springa af upplýsingum er foreldrum ætlað að framkvæma hið ómögulega. Og okkur líður hræðilega ef við gefum börnunum okkar aðkeypta kjúklingabita og leyfum þeim að horfa á sjónvarp eða myndbönd á morgnana.
Ein af ástæðum þess að við erum svona uppgefin er að við fáum allt of mikið af upplýsingum um hvernig foreldrar við eigum að vera.
Kannski er bara kominn tími til að hætta að lesa í einhverju bloggi hvernig við eigum að ala barnið okkar upp svo að það verði næsti forseti, geti lesið þegar það er þriggja ára og eldar meira að segja sjálft grænmetið sem það borðar í hverja máltíð. Kannski er bara ágætt fyrir þig að vera foreldri sem segir fyrirgefðu þegar þú öskar á barnið og hefur hugrekki til að taka þér stundum stund fyrir sjáfa(n) þig, sem biður guð að hjálpa þér til að vera trú sjálfri (sjálfum) þér en biður ekki um styrk til að vera hið fullkomna foreldri.
Næst þegar þú hittir vini þína með lítil börn og það er einhver uppgjöf og vonleysi í augunum á þeim skaltu panta pizzu og senda heim til þeirra um kvöldið. Bjóddu þeim að taka krakkana nokkra tíma svo að þau geti verið ein heima og- hvað ertu að hugsa- stundað smákynlíf þegar þau eru ekki uppgefin. Horfðu beint framan í þau og segðu þeim að þau standi sig vel. Þú mátt bara ekki missa þig ef þau fara að hágráta.
Mjög oft finnst okkur að við klúðrum öllu og að krakkarnir okkar verði alveg ómögulegt fólk sem mun hata okkur og forðast þegar þau eru orðin fullorðnar manneskjur.
Þú ert uppgefin(n) og ég veit ekki hvernær þetta skánar. Í dag gæti allt gengið vel eða þetta gæti einmitt verið dagurinn þegar þú misstir alveg tökin um stund og vissir ekki þit rjúkandi ráð.
Þú skalt anda rólega um stund.
Þú ert ekki ein(n).
Þessa grein skrifaði Steve Wiens en hann er rithöfundur, prestur og faðir. Greinin birtist í tímaritinu “The actual Pastor” Og hefur vakið mikla athygli. Okkur fannst greinin það góð að við þýddum hana og heimfærðum. Við erum nokkuð viss um að þetta kannast allir foreldrar við og þetta höfum við flest hugsað einhvern daginn.