Hugleiðingar á þjóðhátíðardegi Íslendinga
Landið mitt
Hér bjó þjóð
sem barðist
í bökkum
en skráði
sögu liðins tíma
og þuldi
kvæði og sögur
á síðkvöldum
og var bæði rík
og fátæk.
Óvíða fagna menn
birtu
sumardagsins
fyrsta
meir en hér,
þó að stundum
snjói þann dag.
Börn og
unglingar
ganga
syngjandi
um götur
með blik
í augum,
skammdegið
er horfið
og hin bjarta
nótt bíður
okkar allra.
(Guðrún P. Helgadóttir)
Myndir úr þessu ljóði hafa oft svifið fyrir andans augum mínum á ferðum um landið síðastliðin ár. Ég hef undanfarið ekið nokkuð oft eftir endilangri suðurstönd landsins, séð það í grænku sumarsins þegar loftið ómaði af margradda fuglasöng í skjóli hvítrar birtu jöklanna og í þrúgandi ískaldri dimmu skammdegisins. Ég fór síðastliðið sumar um Vestfirði í blíðu eins og hún mest og best verður á Íslandi og átti dýrmæta daga með börnum mínum og barnabörnum á slóðum forfeðra þeirra í Dýrafirði.
Hér bjó þjóð——-
Þegar ég fer um landið og virði fyrir mér tættur og veggjarbrot eða ójöfnur í móanum sem vekja grun um að hér hafi verið túngarður eða ef til vill nátthagi verður umhverfið lifandi, ég sé fyrir mér fólkið sem hér bjó og baslaði, dreymdi drauma, átti sér vonir, vann sigra í hvunndeginum og beið ósigra. Þetta fólk, þjóðin mín skilaði mér draumum, hugsjónum og dýrlegu tungumáli. Í munni þess urðu til orð er lýstu lífinu og hljómmikil nöfn kennileita- Svalvogar, Litla Lág, Brúnir, Álfadalur, Svörtuklettar, Fagridalur, -og það lýkst upp fyrir mér að landið varð að hafa nöfn meðan fært var frá og menn og fénaður fóru um fjöll og firnindi. Farðu með féð fram í Stóru Lág! Nöfnin voru staðsetningartæki fyrri tíma. Og þegar ég fer um landið er ég líka að hugsa um -hver varðveitir nú heitin, örnefnin, öll þessi orð sem höfðu merkingu í daglegu lífi fólksins sem byggði landið?
Ég fór í fyrrasumar austur á Rangárvelli þar sem ég var mörg sumur í sveit á uppvaxtarárum mínum. Jón bóndi á Lækjarbotnum hafði þann sið að hann kom heim af teig um klukkan tíu á morgnana til að vekja mig, færa mér kettling í rúmið, lýsa veðri og skýjafari og segja mér eins og eina sögu. Oft bað hann mig að ganga með mér sér upp í garð (heygarð) þaðan sem sá vítt yfir héraðið og kenndi mér nöfn fjallanna og ótal örnefni-þú þarft að vita, lambið mitt, hvað landið heitir, sagði hann.
Ég hitti bóndann sem nú byggir jörðina og spurði hann m.a. hvort féð bældi sig enn í Litlu Lág. Hér er ekkert fé og hvar er Litla Lág? spurði hann. Og þegar ég ók inn eftir Djúpinu í sumar og var að hugsa til fólksins sem hér bjó og hélt lífi í landinu um leið og það þáði líf sitt af landinu finn ég bæði til söknuðar vegna þess sem er að hverfa eða er horfið og þakklætis að tilheyra þessari þjóð.
Hér bjó þjóð…………….